„Það fóru allir glaðir af sviðinu“

„Magnús Þór og Stefán Jak slógu algjörlega í gegn og lúðrasveitin auðvitað líka – eins og henni einni er lagið,“ segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir, hljómsveitarstjóri Lúðrasveitar Þorlákshafnar en í gærkvöld héldu lúðrasveitin og Stefán Jakobsson sína fyrstu tónleika af þremur um helgina.

„Stemmningin var alveg mögnuð í gærkvöldi. Það fóru allir glaðir af sviðinu með þeim orðum að það væri svo frábært að fá að upplifa þetta aftur tvisvar sinnum um helgina,“ segir Ása en uppselt var á tónleikana í gærkvöldi.

„Á þessum tónleikum eru flutt valin lög eftir söngvaskáldið og Hvergerðinginn Magnús Þór Sigmundsson, sem eins og flestir vita á ógrynni af dægurlagaperlum sem hafa verið samofin þjóðinni í áratugi,“ segir Ása.

Sem fyrr segir var uppselt á fyrstu tónleikana sem haldnir voru í gærkvöldi í Ráðhúsinu í Þorlákshöfn. Næstu tónleikar eru í kvöld, föstudagskvöld, í nýuppgerðum sal Hótel Arkar. Þriðju og síðustu tónleikarnir verða svo á sunnudaginn í Gamla bíó í Reykjavík

Kraftmikill söngvari með angurværa rödd
„Stefán Jakobsson syngur hluta laganna, en hann er meðal annars söngvari hljómsveitarinnar Dimmu. Kraftmeiri söngvari er sennilega vandfundinn, sem hæfir einmitt mörgum laganna vel en svo er svo dásamlegt hvað röddin hans hefur mikil blæbrigði og hann á örugglega eftir að koma mörgum á óvart þegar hann syngur lögin sem eru mýkri og angurværari,“ segir Ása og bætir því við að að Dimma sé einmitt að gefa út nýja plötu í dag.

„Síðast en alls ekki síst, þá kemur Magnús Þór fram á þessum tónleikum sem kynnir og sögumaður. Hann segir sögur frá því hvernig lögin urðu til og fleiri sögur frá hans langa og viðburðaríka ferli sem tónlistarmaður.“

Stórkostlegur lagahöfundur
„Síðustu ár hef ég verið svo lánsöm að kynnast Magnúsi og konunni hans Jenný í gegnum ýmis verkefni og í leiðinni áttað mig betur á því hvað hann er stórkostlegur lagahöfundur og tónlistarmaður. Hann á til svo mikinn hafsjó af laga- og textasmíðum sem eru samgróin þjóðinni eins og lögin Ísland (er land þitt), Þú átt mig ein sem Vilhjálmur Vilhjálmsson söng, Álfar, Jörðin sem ég ann og Ást sem er ef til vill hvað þekktast í flutningi Ragnheiðar Gröndal og svona mætti lengi telja,“ segir Ása.

„Það sem mér þykir líka svo dásamlegt er að hann er alltaf að skapa og endurnýja sig sem tónlistarmaður. Sem dæmi um það þá eru væntanlegar tvær nýjar plötur frá honum þar sem hann er að vinna með ungum tónlistarmönnum og er önnur þeirra seld á tónleikunum.“

„Hugmyndin að því að búa til tónleika tileinkaða lögum Magnúsar kviknaði svo þegar ég fékk það verkefni að stjórna lúðrasveitinni á þessari vorönn. Lúðrasveitin hefur fengist við og komið í framkvæmd mörgum mjög metnaðarfullum og fjölbreyttum verkefnum síðustu misseri og mér þótti þetta tilvalið næsta skref fyrir hana. Í leiðinni skiljum við eftir okkur fullt af nýjum útsetningum sem geta lifað áfram í lúðrasveitabransanum á Íslandi um ókomin ár, því allt eru þetta nýjar útsetningar af lögum Magnúsar, útsett sérstaklega fyrir Lúðrasveit Þorlákshafnar,“ segir Ása.

Leggja á sig mikla vinnu
Aðspurð segir Ása að æfingar fyrir tónleikana hafi gengið mjög vel. „Fólkið sem skipar Lúðrasveit Þorlákshafnar er svo frábært og tilbúið að leggja á sig mikla vinnu til að láta svona verkefni verða að veruleika. Það þarf að hafa í huga að fæstir eru starfandi tónlistarfólk, heldur eru þetta hjúkrunarfræðingar, nemar, sjómenn, kennarar, grafískir hönnuðir, rafvirkjar og allskonar fólk sem hefur nóg annað að gera, en gefur sér tíma og orku í að búa til menningu fyrir samborgara sína að njóta. Það uppsker svo auðvitað með gleðina sem fylgir því að spila saman tónlist og láta svona verkefni verða að veruleika. Það er ákveðin afrekstilfinning sem fylgir því, sem er mjög dýrmæt.“

Ása segist hafa rekið sig á það að sumir hverjir hafa mjög fyrirfram mótaðar hugmyndir af því hvernig lúðrasveitartónlist hljómar. „Ég hef þó grun um að einmitt það fólk muni hafa sérstaklega gaman af þessum tónleikum og gæti jafnvel látið koma sér svolítið á óvart,“ segir Ása að lokum.

Miðaverð er 3.500 kr og hægt er að nálgast miða á midi.is og við hurð klukkustund fyrir tónleikana.


Æfingatímabilið var greinilega skemmtilegt.


Stebbi Jak og Magnús Þór.

Fyrri greinEyvindur safnar fyrir sjálfvirkum hjartahnoðara
Næsta greinLitla stóra Ísland