„Það er hægt að mála á allt“

Ný sýning hefur verið opnuð „Við sprunguna“ á Bókasafninu í Hveragerði. Þar sýnir Sigurbjörg Eyjólfsdóttir myndir og handverk af ýmsum toga, m.a. leirstyttur og myndir málaðar á tré og járn.

Sigubjörg er fædd árið 1944 og hefur tekið þátt í ótal handverkssýningum. Hún lærði blómaskreytingar hjá Ringelberg í Rósinni, Vesturveri og segir að sá lærdómur hafi mótað listsköpun hennar mikið eða eins og hún segir: „þar lærði ég að búa til allt úr engu og geri enn í dag“.

Hún lærði módelteikningu í myndlistarskóla og á meðan börnin hennar voru lítil málaði hún vöggusett og skírnarkjóla með taulitum. Þá eru ófá fermingarkertin sem hún hefur málað með nöfnum fermingarbarna.

Sigubjörg stundaði nám í Handmenntaskóla Íslands á árunum 1981-1984 og var ein af stofnendum Myndlistarfélags Árnesinga. Hún hefur sótt ótal námskeið hjá félaginu og tekið þátt í samsýningum þess.

Sigurbjörg rak verslunina Föndur og gjafir (áður Föndurskúrinn) á Selfossi í níu ár og fór þá að vinna mikið með leir. Sigurbjörg býr núna í Selvoginum og sækir myndefni mikið i umhverfi sitt, Strandarkirkju og sögurnar sem tengjast staðnum. Hún endurnýtir það efni sem til fellur eða hún finnur og gerbreytir því með fallegu myndefni.

Sýningin stendur til 10. júlí og er opin um leið og safnið, virka daga kl. 13-19 og laugardaga kl. 11-14.

Fyrri greinBlómakjólar í blómlegum bæ
Næsta greinStarfshópur fundar ári eftir að hann var skipaður