Ævintýri, skemmtisögur og átthagafræði

Sjötti og síðasti fimmtudagslestur skálda verður í Sunnlenska bókakaffinu í kvöld kl. 20. Átta rithöfundar munu kynna sjö bækur.

Kristín Helga Gunnarsdóttir segir frá ævintýrabókinni Ríólítreglunni sem gerist að hluta til á Suðurlandi í sögutíma Torfa í Klofa jafnframt því að spanna ævintýri nútímafólks.

Hildur Hákonardóttir mun kynna bókina Á rauðum sokkum, sem er viðtalsbók við tólf konur sem tengdust rauðsokkuhreyfingunni. Hildur er ein þessara kvenna.

Gunnar Marel Hinriksson kynnir ljósmyndabókina Selfoss sem hefur fengið þá dóma að vera í senn bráðskemmtileg; fróðleg, angurvær, kaldhæðin, hranaleg og smellin samsuða um Selfossbæ.

Helen Garðarsdóttir og Selfyssingurinn Elín Magnúsdóttir kynna ferðahandbók sína Góða ferð sem er nauðsynleg öllum sem hyggja á útivist og ferðalög á Íslandi.

Elín Gunnlaugsdóttir tónskáld og bóksali kynnir bók sína Póstkort frá París sem kom út á árinu og hefur vakið mikla athygli.

Björn Jóhann Björnsson rithöfundur og blaðamaður segir frá bók sinni Skagfirskar skemmtisögur þar sem er að finna 200 gáskafullar sögur af samtímamönnum þar nyrðra.

Þórunn Kristjánsdóttir íslenskufræðingur segir frá bók Elínar Thorarensen, Angantý sem segir frá sérstæðu ástasambandi sínu við skáldið Jóhann Jóhannsson (1896-1932). Bókin kom fyrst út 1946 og var þá á bannlista hinna sómakæru. Hún er nú endurútgefin með ítarefni.

Húsið opnar kl. 20:00 og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Fyrri greinAuka umhverfis- og Evrópuvitund sína
Næsta greinTilboðum í sorphirðu hafnað