Þjórsá – listamannsspjall

Sunnudaginn 15. apríl kl. 15:00 ræðir Borghildur Óskarsdóttir við gesti um innsetningu sína í Listasafni Árnesinga sem ber heitið Þjórsá.

Þar má sjá Þjórsá í öllu sínu veldi frá hálendinu til árósa bæði sem eins konar innrammaða mynd á gólfi en líka sem vídeó þar sem flogið er yfir ána frá upptökunum við Hofsjökul og niður að sjó. Á sýningunni er einnig þula um Þjórsá eftir Borghildi sem skoða má bæði sem sjónrænt myndverk og hlýða á í flutningi höfundar. Þá er þar líka tvöfalt vídeóverk þar sem Borghildur gerir gjörning í húsatótt við bakka Þjórsár, sem fyrrum var æskuheimili ömmu hennar.

Rannsókn á fjölskyldusögunni sett í fyrirbærafræðilegt samhengi
Um nokkurn tíma hefur Borghildur rannsakað ýmislegt sem tengist fjölskyldusögu hennar og skilað niðurstöðunum í formi margbreytilegra listaverka. „Í verkinu Þjórsá skrifar Borghildur nýjan kafla í heildarverk sitt og setur rannsóknina á fjölskyldusögunni í fyrirbærafræðilegt samhengi. Áherslan er ekki lengur á ættfræðina og frásagnir fólksins af baráttunni við sandinn, heldur á beina náttúrutengingu vitundarinnar við umhverfið.

Í verkinu beinir hún athygli áhorfandans að Þjórsá, lengsta fljóti á Íslandi sem á upptök sín á norðanverðum Sprengisandi og rennur til sjávar í suðri. … Í verkinu miðlar hún birtu, lit, hreyfingu, hljóðum, áferð, og öðrum eiginleikum umhverfisins sem hafa sterkt fagurfræðilegt aðdráttarafl.“ Segir m.a. í grein eftir Æsu Sigurjónsdóttur sem birtist í sýningarskrá sem safnið gefur út um sýninguna.

Áleitnar spurningar um verðmætamat og gildi varðveislu
Þjórsá Borghildar í Listasafni Árnesinga felur í sér vinsamlega hvatningu til þess að læra að þekkja og virða landið og söguna. Samtímis vekur sýningin líka pólitískar spurningar um samband manns og náttúru, umhverfis- og virkjanamál.

Með því að setja Þjórsá upp samhliða sýningu á verkum úr safneign Listasafns Árnesinga verða spurningar um verðmætamat og gildi varðveislu áleitnar. Hvað felst í þeirri siðferðislegu og samfélagslegu ábyrgð að skila verðmætum til komandi kynslóða og hver eru þau verðmæti?