Zoran Ivic til liðs við Selfoss

Hinn reyndi þjálfari Zoran Ivic mun ganga til liðs við handknattleiksdeild Selfoss á komandi tímabili og meðal annars starfa í þjálfarateymi kvennaliðs félagsins.

Magnús Matthíasson, formaður deildarinnar, staðfesti í samtali við sunnlenska.is að viðræður við Ivic væru á lokastigi og að samningur yrði vonandi undirritaður á næstu dögum. Magnús segir komu Ivic á Selfoss mikinn feng fyrir félagið.

Ivic hefur starfað sem handknattleiksþjálfari í rúma tvo áratugi, aðallega í Serbíu. Hann hefur komið að þjálfun allra karlalandsliða þjóðarinnar, frá unglingalandsliðunum og upp til A-landsliðsins auk þess sem hann var aðalþjálfari kvennalandsliðs Serbíu- og Svartfjallalands um tíma.

Auk þess hefur hann þjálfað öll bestu félagslið Serbíu bæði karla og kvenna. Þar má helst nefna Rauðu Stjörnuna og Partizan í Belgrad auk Budocnost sem er stærsta kvennalið Serbíu.

Ivic þekkir til starfsins á Selfossi en hann hefur í tvígang komið á Selfoss og verið gestaþjálfari í handknattleiksakademíu FSu og Umf. Selfoss.

Kvennalið Selfoss varð í 7. sæti í Olís-deildinni á síðasta tímabili undir stjórn Sebastians Alexanderssonar. Sebastian verður áfram aðalþjálfari liðsins en Ivic verður honum til aðstoðar. Auk þess mun hann kenna í handknattleiksakademíunni og koma að þjálfun yngri flokka.

Fyrri greinFundað um framtíðarskipulag Versló á Flúðum
Næsta greinÖruggt hjá Selfyssingum í Breiðholtinu