Yoffe með þrennu í tapleik

Selfyssingar eru komnir í næst neðsta sæti 1. deildar karla í knattspyrnu eftir 4-3 tap gegn BÍ/Bolungarvík á Ísafirði í dag. Joseph Yoffe skoraði öll mörk Selfoss.

Heimamenn voru sprækari í fyrri hálfleik, léku með vindinn í bakið, og voru ekki lengi að skora fyrsta markið. Strax á 4. mínútu komust þeir yfir eftir góða sókn upp vinstri kantinn. Djúpmenn fengu fleiri færi á næstu mínútum en á 18. mínútu jafnaði Joseph Yoffe með góðu skoti úr teignum.

Staðan var þó ekki 1-1 nema í um sex mínútur því að á 24. mínútu komust heimamenn aftur yfir með glæsilegu skoti vel fyrir utan vítateiginn sem markvörðurinn Jóhann Ólafur Sigurðsson átti ekki möguleika á að komast í. Staðan var því 2-1 í hálfleik.

Leikmenn BÍ/Bolungarvíkur voru ákveðnari á upphafsmínútum síðari hálfleiks og komust í 3-1 strax á 4. mínútu síðari hálfleiks eftir klafs í vítateig Selfyssinga. Fimm mínútum síðar minnkaði Yoffe muninn í 3-2 og ljóst að Selfyssingar voru ekki hættir.

Jóhann Ólafur kom til bjargar á 62. mínútu þegar hann varði frábærlega stórhættulega aukaspyrnu, en heimamenn voru sterkari lengst af síðari hálfleik og bættu fjórða markinu við á 82. mínútu. Undir lokin sóttu Selfyssingar stíft að marki Skástriksins og pressan skilaði sér á 88. mínútu þegar þeir fengu vítaspyrnu og úr henni kórónaði Yoffe þrennuna.

Þær fáu mínútur sem eftir voru dugðu Selfyssingum þó ekki til að bæta við marki og lokatölur urðu 4-3.

Að loknum fjórum umferðum eru Selfyssingar í næst neðsta sæti deildarinnar með 3 stig og mæta næst Tindastóli á heimavelli á laugardaginn kemur.

Fyrri greinLögreglan lýsir eftir Gunnari
Næsta greinFyrsti sigur KFR í deildinni