Yfirburðir HSK/Selfoss á MÍ 11-14 ára

Lið HSK/Selfoss mætti gríðarlega sterkt til leiks á Meistaramóti Íslands 11-14 ára sem fram fór í Kaplakrika í Hafnarfirði um síðustu helgi.

Liðið sigraði með yfirburðum í heildarstigakeppninni og í sjö af átta flokkum sem keppt var í á mótinu. Í heildarstigakeppninni náði HSK/Selfoss 1.039 stigum, FH 481,5 og ÍR 275.
Í einstaklingsgreinum unnu liðsmenn HSK/Selfoss sextán Íslandsmeistaratitla, auk 24 silfurverðlauna og átján bronsverðlauna, samtals 59 verðlaun. Það er þó klárlega liðsheildin sem skilar liðinu sigri í heildarstigakeppninni en fyrstu tíu í hverri grein fá stig fyrir félagið sitt.
Í flokki 14 ára varð Eva María Baldursdóttir Íslandsmeistari í hástökki og langstökki. Hún var einnig í sveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×200 metra boðhlaupi ásamt Birtu Sigurborgu Úlfarsdóttur, Helgu Ósk Gunnsteinsdóttur og Unu Bóel Jónsdóttur. Sindri Freyr Seim Sigurðsson varð Íslandsmeistari í 60 m grindahlaupi, langstökki og 60 m hlaupi. Í 60 m hlaupinu setti Sindri mótsmet og hljóp á 7,71 sek.
Í flokki 13 ára varð Ingibjörg Bára Pálsdóttir Íslandsmeistari í kúluvarpi, Sæþór Atlason varð Íslandsmeistari í kúluvarpi og 60 m grindahlaupi og Sebastian Þór Bjarnason varð Íslandsmeistari í langstökki. Þeir Sæþór og Sindri voru báðir í boðhlaupssveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×200 m hlaupi, ásamt þeim Hauki Arnarsyni og Goða Gný Guðjónssyni.
Í flokki 12 ára varð Rúrik Nikolai Bragin Íslandsmeistari í kúluvarpi.
Í flokki 11 ára varð Veigar Þór Víðisson Íslandsmeistari í hástökki og Jóhanna Elín Halldórsdóttir varð Íslandsmeistari í 600 m hlaupi og hástökki. Hún var einnig í boðhlaupssveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×200 m boðhlaupi ásamt þeim Þórhildi Arnarsdóttur, Katrínu Zala Sigurðardóttur og Dýrleifu Nönnu Guðmundsdóttur.
Fyrri greinMetþátttaka í sauðfjársæðingum
Næsta greinSelja nú Fullwood mjaltaþjóna