Yfirburðir hjá Þórsurum

Þorlákshafnar-Þórsarar leika á alls oddi í 1. deild karla í körfubolta og eru ósigraðir í efsta sæti deildarinnar.

Þór tók á móti Leikni í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn í kvöld og þar var aldrei spurning hvort liðið tæki með sér stigin tvö að leik loknum.

Þórsarar voru mun sterkari og náðu 20 stiga forskoti strax í 2. leikhluta en staðan í hálfleik var 46-23.

Þriðji fjórðungurinn var jafn en Þórsarar héldu Leikni í 8 stigum í síðasta leikhlutanum og sigruðu að lokum 82-50.

Stigaskorið dreifðist vel hjá Þór enda fengu allir að spreyta sig. Eric Palm skoraði 16 stig, Þorsteinn Ragnarsson og Emil Karel Einarsson 14 en Emil tók 11 fráköst að auki. Vladimir Bulut skoraði 13 stig og þeir Baldur Ragnarsson og Bjarki Gylfason voru báðir með 10 stig. Bjarki átti góðan dag undir körfunni og tók 18 fráköst að auki.