Yfirburðir Ægis í eins marks sigri

Ægismenn lögðu Ísbjörninn að velli í 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur voru 0-1 á gervigrasinu við Kórinn í Kópavogi.

Ægismenn spiluðu vel í fyrri hálfleik og fengu ótal marktækifæri en Ísbjarnarmenn voru þéttir til baka og börðust vel í vörninni.

Heimamenn komust meira inn í leikinn í seinni hálfleik en Ægismenn fengu fleiri og betri færi en uppskáru ekki mark fyrr en á 74. mínútu. Boltinn fór þá í hramminn á varnarmanni Ísbjarnarins inni í vítateig eftir hornspyrnu. Milan Djurovic fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Ísbjörninn átti síðasta færið í leiknum en Magnús Karl Pétursson, markvörður Ægis, varði meistaralega og tryggði félögum sínum stigin þrjú.