Á laugardag verður haldin önnur keppni sumarsins í Enduro fyrir alla sem er hluti af Íslandsmeistaramótaröð MSÍ. Keppnin verður að þessu sinni haldin í landi Jaðars í Hrunamannahreppi. Fyrsta enduromótið á Jaðri var haldið í fyrrasumar og þótti keppendum brautin sérstaklega erfið.
Keppendur keyra samfleytt í 90 min og fara að jafnaði 5-6 hringi og er mikið sjónarspil að sjá þá koma yfir rásmarkið drullugri og þreyttari í hvert sinn. Búið er að gera ráð fyrir sérstöku áhorfendahólfi. Keppnin byrjar klukkan 14:00 og eru áhugasamir hvattir til að koma á Jaðar og fylgjast með þessu kröftuga fólki reyna á þolmörk sín.
Enduro fyrir alla var stofnað af Einari Sverri Sigurðarsyni, Daða Þór Halldórssyni, Jónatan Þór Halldórssyni og Pétri Smárasyni til að auðvelda áhugafólki í mótorsporti að taka þátt í mótum sér til skemmtunar. Keppendum hefur fjölgað jafnt og þétt með hverri keppni og stefnir í metþátttöku í sumar. Bílavarahlutafyrirtækið Stilling hf. og Liqui Moly þýski bætiefna- og olíuframleiðandinn hafa verið aðal bakhjarlar mótaraðarinnar síðan hún var stofnuð 2020.