„Vorum bara eins og skokkhópur“

Selfoss tapaði dýrmætum stigum í Inkasso-deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar HK kom í heimsókn á JÁVERK-völlinn. Gestirnir sigruðu 3-4.

„Mér fannst við lélegir. Við vorum bara eins og skokkhópur hérna inná, sérstaklega í fyrri hálfleik. Það var eins og menn væru orðnir einhverjir svaka töffarar af því að við erum ekki búnir að tapa leik í rúman mánuð og menn halda að þetta verði eitthvað þægilegt. Við vorum bara lélegir í kvöld og það þarf að athuga hvort að menn séu eitthvað að undirbúa sig vitlaust því þetta var mjög, mjög lélegt,“ sagði Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Menn eiga að vita, eins og deildin hefur spilast, að þetta eru mjög jöfn lið. Við getum ekkimætt með hangandi haus og ætlað að gera þetta með vinstri. Ég er mjög vonsvikinn með það hvernig við komum inn á okkar heimavöll í dag,“ sagði Gunnar ennfremur.

Kristófer Eggertsson kom HK yfir strax á 5. mínútu með skoti af stuttu færi eftir klaufagang í Selfossvörninni. Svavar Berg Jóhannsson jafnaði metin á 13. mínútu með góðum skalla úr erfiðri stöðu eftir fyrirgjöf Þorsteins Daníels Þorsteinssonar.

Fimm mínútum síðar komust gestirnir yfir aftur með marki Hákons Inga Jónssonar eftir snarpa sókn en Selfyssingar voru afar ósáttir við að markið skyldi standa þar sem sóknarmaður HK hafði handleikið boltann í aðdraganda þess. Vallargestir þurftu þó ekki að bíða nema í aðrar fimm mínútur eftir öðru jöfnunarmarki Selfoss en það skoraði Pachu eftir frábært spil í gegnum HK vörnina.

Markaveislan í fyrri hálfleik var ekki búin því HK fékk vítaspyrnu á 33. mínútu eftir að Andy Pew braut af sér á vítateigslínunni og Hákon Ingi skoraði örugglega úr spyrnunni. Staðan 2-3 í hálfleik og fimm mörk í fyrri hálfleik á Selfossvelli, en það hefur ekki gerst síðan 6. júní 2011, þegar Selfoss og HK áttust við í 1. deildinni.

Seinni hálfleikur var ekki eins fjörugur og sá fyrri og HK-ingar voru heilt yfir sterkari. Selfyssingar fengu ákjósanlegt færi til að jafna á upphafsmínútu seinni hálfleiks þegar Richard Sæþór Sigurðsson fékk frábæra sendingu innfyrir HK vörnina frá Arnari Loga Sveinssyni en markvörður HK varði frá honum. Fimm mínútum síðar varði Vignir Jóhannesson vel þegar kolrangstæður sóknarmaður HK komst í kostulegt færi og leikmenn og dómarar fylgdust gapandi með aðförunum í markteignum.

HK bætti við Frank Lampardmarki á 69. mínútu þegar Kristófer skaut fyrir utan teig og boltinn breytti um stefnu af varnarmanni Selfoss áður en hann fór í netið. Tveimur mínútum síðar jafnaði JC Mack með frábæru skallamarki eftir sendingu Óttars Guðlaugssonar og Selfyssingar eygðu von. Í stöðunni 3-4 náðu þeir ekki að láta kné fylgja kviði og gestirnir sigldu sigrinum nokkuð örugglega heim.

Selfoss hefur 20 stig í 6. sæti deildarinnar en HK er í 9. sæti með 17 stig.