„Vörnin gaf okkur þetta“

Þór Þorlákshöfn vann góðan sigur á Keflavík í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld í fyrsta heimaleik vetrarins í Icelandic Glacial-höllinni í Þorlákshöfn.

„Þetta var ekki fallegasti leikurinn en ég var ánægður með að landa sigri. Það má segja að vörnin hafi gefið okkur þetta þó að Tobin Carberry hafi verið mjög sterkur í sókninni,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við erum á ágætis róli en eigum eftir að smyrjast betur saman. Það er tilhlökkun hjá okkur að fá kjötið í teignum í Grétari og það mun gefa okkur aðra vídd. Hann kemur vonandi inn í þetta uppúr næstu mánaðamótum. Að sama skapi var ég mjög ánægður með Davíð, Emil og Óla í dag,“ sagði Einar ennfremur.

Leik­ur­inn var jafn all­an tím­ann og liðin skipt­ust á að gera áhlaup. Heilt yfir voru Þórsarar þó frísk­ari. Þeir leiddu 40:30 í hálfleik og voru svo sterkari í lokin þó að Keflvíkingar hafi andað hressi­lega ofan í háls­málið á þeim.

Tölfræði Þórs: Tobin Carberry 30 stig/7 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Helgi Jónsson 11 stig/5 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 8 stig, Maciej Baginski 8 stig/6 fráköst, Emil Karel Einarsson 6 stig, Þorsteinn Már Ragnarsson 4 stig, Ragnar Örn Bragason 4 stig/7 fráköst, Magnús Breki Þórðason 3.

Fyrri greinLangt síðan fé hefur komið jafn vænt af fjalli
Næsta greinFSu vann en Hamar tapaði