Vonbrigði á Valbjarnarvelli

Kvennalið Selfoss tapaði 3-1 gegn Reykjavíkur-Þrótti á Valbjarnarvelli í kvöld og missti þar af sæti í Pepsi-deild kvenna.

Fyrri leik liðanna lauk með 1-1 jafntefli og í kvöld var boðið upp á dramatískar lokamínútur. Þróttur leiddi 2-1 á 77. mínútu þegar Selfoss fékk vítaspyrnu og fyrirliði Þróttar var rekinn af velli með sitt annað gula spjald fyrir að handleika boltann inni í teig.

Anna Þorsteinsdóttir fór á vítapunktinn en skaut framhjá en mark hefði þýtt að Selfoss væri komið upp með fleiri mörk skoruð á útivelli. Strax í næstu sókn Selfoss var Guðmunda Óladóttir felld inni í vítateig en dómarann skorti kjark til að dæma annað víti. Það voru síðan Þróttarar sem áttu síðasta orðið en Þorlákshafnarmærin Margrét Hólmarsdóttir tryggði þeim þá sigurinn þegar hún stakk sér innfyrir eftir slæm varnarmistök Selfyssinga.

Selfyssingar höfðu undirtökin í fyrri hálfleik en bæði lið fengu sín færi. Þróttur komst yfir strax á 3. mínútu en Olga Færseth jafnaði leikinn með laglegu marki á 31. mínútu.

Þróttur komst í 2-1 á 54. mínútu uppúr hornspyrnu en í aðdraganda hennar hafði Dagný Pálsdóttir varið frábærlega í Selfossmarkinu. Dagný átti fleiri góðar vörslur í síðari hálfleik þar sem Þróttarar fengu fleiri færi og fóru betur með þau.