„Vonandi kem ég aftur”

Eric Palm sem hefur verið besti leikmaður Þórsara á tímabilinu sat á bekknum í gær og fylgdist með félögum sínum leggja Skallagrím.

Palm hefur glímt við meiðsli eftir áramót og leikið meiddur nokkra leiki en hann hvíldi í síðustu tveimur leikjunum. Hann tók samt þátt í leiknum á bekknum og fagnaði vel með félögum sínum í lokin.

„Þetta er búið að vera frábært tímabil og ég vildi óska þess að ég hefði getað spilað síðustu tvo leikina. Við tókum þá ákvörðun að hlífa fætinum hjá mér, spara hann fyrir næsta tímabil,” segir Palm sem er áhugasamur um að spila áfram í Þorlákshöfn.

„Já, vonandi kem ég aftur hingað. Fólkið hefur tekið mér opnum örmum og ég er vanur kuldanum frá Chicago. Það tók mig nokkrar vikur að aðlagast en hér tala allir góða ensku og það auðveldaði mér að komast inn í samfélagið,” segir Palm.

„Við vorum ekki með reynslumikið lið í vetur, unga stráka og mig og Vladimir á fyrsta ári á Íslandi. Við vissum kannski ekki hverju við áttum von á fyrirfram en þegar upp er staðið þá hefðum við ekki getað beðið um meira,” sagði Eric Palm að lokum.

Fyrri greinLeita sleðamanns við Hrafntinnusker
Næsta greinSleðamaðurinn fundinn