Víti í súginn í Vestmannaeyjum

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss hóf keppni í Bestudeildinni í knattspyrnu í dag á stórleik gegn nágrönnum sínum í ÍBV. Leikurinn fór fram í austangjólu á Hásteinsvelli.

Vindurinn setti mikinn svip á leikinn, Selfoss hafði vindinn í bakið í fyrri hálfleik og þær vínrauðu voru nánast einráðar á vellinum, án þess að skapa sér teljandi færi. Það var því talsvert gegn gangi leiksins að Holly O’Neill kom ÍBV yfir á 28. mínútu eftir snarpa sókn.

O’Neill var ekki hætt að láta til sín taka því strax í næstu sókn Selfoss braut hún á Jimena López innan vítateigs. Selfyssingar fengu vítaspyrnu sem López tók sjálf en boltinn fór vel framhjá.

Staðan var 1-0 í hálfleik og seinni hálfleikurinn var tíðindalítill. ÍBV átti stangarskot á 61. mínútu en Selfyssingum gekk lítið að sækja.

Næsti leikur Selfoss og fyrsti heimaleikurinn verður þann 1. maí á JÁVERK-vellinum þegar Þróttur Reykjavík kemur í heimsókn.

Fyrri greinJÁVERK hlaut umhverfisverðlaunin Kuðunginn
Næsta greinHamar tekur forystuna í einvíginu