Víti í súginn í tapleik á Nesinu

Brynjólfur Þór Eyþórsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn eru enn að leita að fyrsta sigri sínum í Lengjudeild karla í knattspyrnu en liðið heimsótti Gróttu á Seltjarnarnesið í kvöld.

Fyrri hálfleikur var besta skemmtun, opinn leikur og færi á báðum endum vallarins. Staðan var 0-0 í leikhléi en í seinni hálfleik fór að draga til tíðinda.

Á 59. mínútu fengu Ægismenn vítaspyrnu þegar boltinn fór í hönd Gróttumanns innan teigs. Renato Punyed fór á punktinn en skaut í stöngina. Rándýrt. Fimm mínútum síðar var komið að Gróttu að spreyta sig á vítapunktinum eftir að Anton Breki Viktorsson hafði handleikið boltann í vítateignum. Stefán Már Hannesson var nálægt því að verja spyrnuna en inn fór boltinn og staðan orðin 1-0.

Aðeins þremur mínútum síðar komst Grótta í 2-0 eftir góða sókn og róðurinn farinn að þyngjast hjá Ægi. Þeir gáfust þó ekki upp og Brynjólfur Þór Eyþórsson minnkaði muninn í 2-1 þegar átta mínútur voru eftir. Ægir reyndi allt hvað af tók að jafna á lokamínútunum en tókst það ekki og Grótta sigraði 2-1.

Ægir er áfram á botninum með 1 stig en Grótta lyfti sér upp í 4. sætið með 10 stig.

Fyrri greinVirkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun fellt úr gildi
Næsta grein„Suðurlandsins eina von“ lokaði leiknum