Víti í súginn í naumu tapi

Bergrós Ásgeirsdóttir (lengst t.h.) skoraði sitt fyrsta mark á ferlinum í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti Breiðablik í toppbaráttu úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu í dag. Lokatölur urðu 2-1 í jöfnum leik og má þar með segja að Selfoss hafi stimplað sig út úr toppbaráttunni.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik, Selfyssingar fengu betri færi en tókst ekki að koma boltanum í netið. Það dró til tíðinda á 18. mínútu þegar brotið var á Evu Núru Abrahamsdóttur innan vítateigs og Selfoss fékk víti. Brenna Lovera tók spyrnuna en markvörður Breiðabliks varði auðveldlega.

Staðan var 0-0 í leikhléi og mörkin létu áfram á sér standa í seinni hálfleiknum. Blikar byrjuðu af krafti og þjörmuðu vel að gestunum sem vörðust skipulega. Á 77. mínútu fengu Blikar svo vítaspyrnu þegar Þóra Jónsdóttir braut á Karitas Tómasdóttur. Agla María Albertsdóttir fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Selfyssingar gáfust ekki upp og jöfnuðu strax í næstu sókn. Eftir fyrirgjöf frá vinstri barst boltinn á bakvörðinn Bergrósu Ásgeirsdóttir sem hirti frákastið og skoraði af öryggi – hennar fyrsta mark á ferlinum. Selfoss aftur í ágætri stöðu eftir markið en þær sváfu á verðinum í kjölfarið og Breiðablik skoraði sigurmarkið tveimur mínútum síðar. Þar var á ferðinni Taylor Ziemer með góðu skoti upp úr innkasti.

Lokatölur urðu 2-1 en Blikar voru nær því að bæta við marki á lokakaflanum.

Selfoss er áfram í 3. sæti með 18 stig en Breiðablik er komið með 27 stig í 2. sætinu og Valur er á toppnum með 29 stig.

Fyrri greinBesti árangur GOS frá upphafi
Næsta greinSvekkjandi tap gegn botnliðinu