Vítaskot Birgis vendipunktur leiksins

Mílan spilaði sinn síðasta leik í 1. deild karla í handbolta seint í kvöld þegar HK kom í heimsókn. Lokatölur í Vallaskóla urðu 18-27 en HK hafði frumkvæðið allan leikinn.

Lokaumferð deildarinnar fer fram á föstudaginn kl. 19:30 en þar sem leikur Mílunnar og HK skipti engu máli upp á endanlega stöðu liðanna í deildinni, var hann færður til klukkan 21:30 í kvöld. Áhorfendur létu tímasetninguna ekki á sig fá og um 70 gestir sátu í stúkunni.

Stuðningsmenn Mílunnar fengu þó ekki mikið fyrir sinn snúð, að minnsta kosti framan af, því HK komst í 0-4 og leiddi 3-9 þegar um sautján mínútur voru liðnar af leiknum. Vendipunkturinn í leiknum var vítakast sem Birgir Örn Harðarson, forseti félagsins, klikkaði illa á um miðjan hálfleikinn en hefði honum tekist að skora hefði það örugglega kveikt baráttuneista hjá liðsmönnum Mílunnar.

Það gerðist hins vegar ekki, þannig að HK leiddi með fimm mörkum í hálfleik, 8-13. Gestirnir juku muninn í sjö mörk í upphafi síðari hálfleiks og héldu öruggri forystu allt til loka.

Magnús Öder Einarsson var markahæstur hjá Mílunni með 7/1 mörk, Bjarki Már Magnússon skoraði 5, Gunnar Ingi Jónsson 2, Hákon Öder Einarsson, Hjörtur Leó Guðjónsson og Einar Sindri Ólafsson skoruðu allir 1 mark og Birgir Örn Harðarson 1/1.

Þrátt fyrir tapið var Birgir Örn viðræðuhæfur í leikslok. „Þetta hefði getað orðið jafnara, við vorum að klikka þegar þeir voru að gera mikil mistök þannig að við höfðum alveg tækifæri til að jafna þetta og vera jafnvel með jafna stöðu í hálfleik,“ sagði Birgir og var sammála því að vítið sem hann klikkaði á hafi verið eitt af stóru atriðunum í fyrri hálfleik. Sigurjón Guðmundsson varði þá glæsilega frá forsetanum.

„Já, það hefði sennilega kveikt í liðinu ef ég hefði skorað. Ég hefði heldur ekki hætt að skora sjálfur í framhaldinu. Þessi markmaður er sonur Gumma Hrafnkels, hörkuefni og ég varð að leyfa honum að taka þennan bolta. Við þurfum að gefa þessum strák sjálfstraust og koma honum í landsliðið.“

En að öllu gamni slepptu þá var Míluforsetinn ánægður með veturinn hjá liðinu. „Veturinn er búinn að vera frábær, við gerðum betur en í fyrra og enduðum í 6. sæti. Heilt yfir mjög gaman og frábær hópur. Við töpuðum tveimur dýrmætum leikjum á móti ÍH en ef við hefðum klárað þá, og þessa tvo leiki núna í lokin þá hefðum við flogið inn í úrslitakeppnina. Það er ágætt markmið fyrir næsta vetur,“ sagði Birgir en Mílumenn ætla að halda ótrauðir áfram í deildarkeppninni.

„Það er ekki spurning. Ég vona bara að Selfoss komist upp um deild svo þeir hætti að þvælast fyrir okkur í 1. deildinni. Ef þeir fara upp þá verður kannski meira svigrúm til þess að fá leikmenn lánaða frá þeim til þess að styrkja okkar lið og þá munum við örugglega ná að byggja enn frekar ofan á árangurinn okkar í vetur,“ sagði Birgir að lokum.

Fyrri greinLeitað að vitnum að líkamsárás
Næsta grein„Fyrirhugaðar framkvæmdir valda óbætanlegu tjóni á náttúru hreppsins“