„Virkilega súr yfir þessu“

Hergeir Grímsson var markahæstur Selfyssinga. Ljósmynd/Sigurður Ástgeirsson

Selfyssingar náðu sér aldrei á flug þegar Grótta kom í heimsókn á Selfoss í Olísdeild karla í kvöld. Gestirnir sigruðu 20-26.

„Ég er virki­lega súr yfir þessu. Við erum að skjóta illa og tapa bolt­um og marg­ir leik­menn eru bara ekki með, því miður. Við und­ir­bjugg­um okk­ur vel fyr­ir þenn­an leik en svo misst­um við ör­yggið frá okk­ur og menn fara að ef­ast um hlut­ina og ætla að fara að bjarga öllu og skora helst tvö mörk í hverri sókn og það fer bara með okk­ur,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfyssingar byrjuðu leikinn ágætlega og á tíundu mínútu var staðan 4-2. Eftir það tók Grótta leikinn yfir, bæði í vörn og sókn, og Selfyssingar virtust ekki hafa neina trú á verkefninu. Staðan í hálfleik var 11-14.

Leikur Selfoss skánaði ekki í seinni hálfleik þar sem liðið skoraði aðeins níu mörk en Gróttumenn voru agaðir og héldu sínu striki. Á lokakaflanum var allur vindur úr Selfyssingum og aldrei var nein spenna í leiknum.

Hergeir Grímsson var markahæstur Selfyssinga með 5/2 mörk, Alexander Egan og Guðmundur Hólmar Helgason skoruðu 4 mörk, Tryggvi Þórisson 2, Ragnar Jóhannsson 2/1 og þeir Nökkvi Dan Elliðason, Einar Sverrisson og Atli Ævar Ingólfsson skoruðu allir 1 mark.

Vilius Rasimas varði 13 skot í marki Selfoss en maður leiksins var markvörður gestanna, Stefán Huldar Stefánsson, sem varði 21 skot, þar af þrjú víti.

Selfoss er nú í 8. sæti deildarinnar með 11 stig og mætir næst ÍBV í Suðurlandsslag á Selfossi strax á fimmtudaginn. Grótta er í 10. sæti með 9 stig.

Fyrri greinStútur ók á staur
Næsta greinHamar og Selfoss töpuðu