Virkilega góð liðsframmistaða

Richard Sæþór Sigurðsson stekkur inn úr vinstra horninu og skorar eitt af fjórum mörkum sínum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann tíu marka sigur á HK þegar liðin mættust í Olísdeild karla í handbolta í Set-höllinni á Selfossi í kvöld, 33-23.

„Ég er virkilega sáttur við þennan leik í kvöld. Við vorum með Einar á fæðingardeildinni og óskum honum og fjölskyldunni innilega til hamingju, Gummi veikur heima, Ísak fótbrotinn, Árni Steinn tognaður aftan í læri og Hergeir er að koma til baka. Það vantaði fimm af sex sem eru búnir að spila mest í útilínunni hjá okkur í vetur,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Stropus og Tryggvi Sigurberg koma alveg frábærir inn í kvöld. Þetta var góður tímapunktur fyrir Tryggva að koma inn í liðið, hann er búinn að standa sig virkilega vel í vetur með ungmennaliðinu og er búinn að vera frábær á æfingum hjá okkur. Ég hefði ekki látið hann spila ef ég myndi ekki treysta honum. Raggi steig frábærlega upp og Sverrir sömuleiðis í vörninni. Ég get talið allt liðið upp, við vorum með virkilega góða liðsframmistöðu í kvöld. Það er ekki sjálfgefið að vinna HK með tíu mörkum, þeir gerðu jafntefli við Haukana í síðasta leik. Við höfðum frábæra stjórn á leiknum og spiluðum frábæra vörn sem var lykillinn að þessu,“ sagði Halldór Jóhann ennfremur.

Aldrei spurning hvar sigurinn myndi lenda
Selfoss tók strax frumkvæðið í leiknum og leiddi með tveimur mörkum þangað til HK jafnaði 8-8. Þá settu heimamenn í gírinn og náðu fimm marka forskoti en staðan var 16-14 í hálfleik.

Í seinni hálfleiknum var aldrei spurning hvar sigurinn myndi lenda. Selfoss náði fljótlega aftur fimm marka forskoti og góður varnarleikur liðsins skilaði því að HK ógnaði forskotinu aldrei. Sverrir Pálsson fór mikinn í Selfossvörninni og var með 8 brotin fríköst.

Stropus öruggur í skyttunni
Karolis Stropus var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Ragnar Jóhannsson skoraði 5, Atli Ævar Ingólfsson 5/2, Richard Sæþór Sigurðsson og Tryggvi Þórisson 4, Guðjón Baldur Ómarsson og Tryggvi Sigurberg Traustason 3 og Hannes Höskuldsson 2.

Vilius Rasimas varði 10/2 skot í marki Selfoss og var með 34% markvörslu og Sölvi Ólafsson var með 3 varin skot og 42% markvörslu.

Selfoss lyfti sér upp í 5. sæti deildarinnar og er með 20 stig, fjórum stigum á eftir ÍBV í 4. sætinu þegar fjórar umferðir eru eftir af deildarkeppninni.

Fyrri greinSunnlendingum fjölgar langt umfram landsmeðaltal
Næsta greinEinn milljarður króna í uppbyggingu ferðamannastaða á Suðurlandi