Vínrauður dagur á Selfossi – Uppselt á 25 mínútum

Það mun mæða mikið á þeim Atla Ævari, Hauki og Elvari í kvöld. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Karlalið Selfoss getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í handbolta í fyrsta skipti í sögu félagsins í kvöld, þegar liðið mætir Haukum í Hleðsluhöllinni á Selfossi í fjórða leik einvígisins.

Það er óhætt að segja að það sé spenna í bæjarfélaginu vegna leiksins. Forsala miða fór fram í gær og seldu Selfyssingar alla sína 600 miða á 25 mínútum og þurftu um 100 manns frá að hverfa miðalausir úr röðinni sem teygði sig langt út úr húsinu. Haukar fá 150 miða í sinn hlut þannig að alls verða 750 áhorfendur í Hleðsluhöllinni í kvöld.

Leikurinn hefst kl. 19:30 en þeir Selfyssingar sem vilja vera innan um annað stuðningsfólk geta horft á leikinn í golfskálanum á Svarfhóli og á Kaffi Selfoss. Í höfuðborginni ætla Selfyssingar að fylkja liði á O’Learys í Smáralind. Einnig verður krakkahorn í Hleðsluhöllinni í kvöld þar sem leikurinn verður sýndur á breiðtjaldi.

Selfossbær skartar sínu fegursta í dag og á annarri hverri fánastöng hafa Selfossfánar verið dregnir að húni. Það er vínrauður dagur hjá grunnskólum og í mörgum fyrirtækjum og Selfosshjartað slær af krafti.

Hér að neðan er myndband sem Erna Jóhannesdóttir tók í Sunnulækjarskóla í morgun þar sem nemendur sendu Selfossliðinu hvatningarkveðju.

Hér má sjá röðina í forsöluna í gær:

Fyrri greinNáðhús í Þorlákshöfn ónýtt eftir eld
Næsta greinÁtta Sunnlendingar á Smáþjóðaleikunum