„Vinnum áfram með það sem við erum að gera vel“

Annan leikinn í röð gerðu Selfyssingar svekkjandi jafntefli gegn liði í toppbaráttu Inkasso-deildarinnar í knattspyrnu. Þróttur R kom í heimsókn á Selfoss í kvöld og lokatölur urðu 1-1.

„Þetta var annar heimaleikurinn í röð þar sem mér fannst við sýna mikil gæði, leikgleði og yfirburði. Og… aftur fáum við ekki þrjú stig. Það er jafnvel sárara núna heldur en í leiknum gegn Fram. Við klúðruðum þremur alveg svakalegum dauðafærum og það eru kannski stóru mistökin sem við gerum í þessum leik, þó að við höfum fengið mark á okkur úr föstu leikatriði. Þróttarar eru sterkir í föstum leikatriðum, en við náðum að loka á allt uppspil hjá þeim og við áttum góðar sóknir,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„En við gerum klaufamistök þegar við fáum á okkur mark, þegar við fáum rautt spjald og þegar við klúðrum dauðafærum. Það er erfitt að vinna fótboltaleiki þegar við gerum þetta. En við vorum samt góðir í kvöld og við ætlum að halda áfram að vinna með það sem við erum að gera vel. Við sýnum það með svona leik að við eigum fullt erindi að vera í toppbaráttunni með þessum liðum en okkur vantar kannski einhvern stöðugleika. Mér er reyndar sama hvernig stöðutaflan lítur út núna, við spyrjum að leikslokum eins og maðurinn sagði,“ sagði Gunnar ennfremur.

Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleik en það voru Þróttarar sem voru fyrri til að skora. Þeir brutu ísinn á 35. mínútu eftir hamagang í vítateig Selfoss uppúr hornspyrnu. Vilhjálmur Pálmason kom boltanum í netið.

Tæpum tíu mínútum síðar náðu Selfyssingar að jafna þegar Pachu fékk boltann í vítateig Þróttar og hamraði hann upp í þaknetið. Staðan var 1-1 í hálfleik.

Selfoss átti álitlegar sóknir í upphafi síðari hálfleiks og á 52. mínútu fékk liðið tvö dauðafæri. Alfi Conteh þrumaði boltanum fyrst í samskeytin á marki Þróttar af stuttu færi og þaðan datt boltinn út í vítateiginn á Inga Rafn Ingibergsson sem þrumaði honum út á Birkivelli fyrir opnu marki.

Þróttur fékk engin færi í seinni hálfleiknum en liðið ógnaði helst í föstum leikatrinum. Á 77. mínútu fengu Selfyssingar svo aftur dauðafæri þegar þeir voru komnir þrír gegn einum í skyndisókn. Pachu renndi boltanum á JC Mack sem komst einn inn í gegn en markvörður Þróttar mætti honum og varði slakt skot JC auðveldlega.

Fimm mínútum síðar fékk Svavar Berg Jóhannsson sitt annað gula spjald og þar með rautt og manni færri náðu Selfyssingar ekki að ógna að ráði. Þeir voru þó nær því að skora en gestirnir en sóknarmenn Þróttara komust ekkert áleiðis gegn sterkri vörn Selfyssinga.

Selfoss hefur 15 stig í 5. sætinu en Þróttur er í 3. sæti með 20 stig.

Fyrri greinKvennalandsliðið í æfingabúðum á Selfossi
Næsta greinVegan karamellu ískaka