„Vinnubrögð margra félaga algjörlega siðlaus“

Gunnar Gunnarsson, þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta, segir vinnubrögð margra íþróttafélaga algjörlega siðlaus þegar þau reyna að sækja leikmenn austur fyrir fjall.

Viðtal við Gunnar birtist á fimmeinn.is þar sem hann ræðir um leikmannamál Selfossliðsins. Selfyssingar eru í óða önn að ræða við sína leikmenn og það ætti að vera ljóst að stórum hluta í næstu viku hvort og hvaða breytingar verða á hópnum. Það er þó vitað að mörg úrvalsdeildarlið hafa verið að horfa hýru auga á leikmenn þeirra og ekki útilokað að einhverjir þeirra verði leikmenn í efstu deild á næsta tímabili.

Gunnar segir í viðtalinu að sé svo sem engin nýlunda að lið í efstu deild sæki austur fyrir fjall í leikmenn, það sé nánast árlegur viðburður.

„Hins vegar finnst mér það algerlega siðlaust þegar félög eru að hafa samband við leikmenn sem eru ekki nema 16-17 ára og bjóða þeim gull og græna skóga án vitundar okkar, við höfum meira að sega orðið vitni að því að verið að tæla 16 ára ungling milli landshluta og maður spyr sig hvar siðferðið sé hjá þessum liðum,“ segir Gunnar í samtali við fimmeinn.is.

„Við vitum t.d að fjölmörg lið hafa verið að sækjast í ákveðinn leikmann hjá okkur, en ég get alveg sagt hreinskilningslega út að aðeins tvö af þessum félögum sóttu um leyfi hjá okkur til að ræða við leikmannin, önnur fóru ólöglegar leiðir til þess, en við veittum þessum félögum tveim góðfúslega fullt leyfi til þess. Við skiljum algerlega sjónarmið okkar leikmanna að þeir horfi á að fara í stóran klúbb og spila í efstu deild og höfum ekki staðið í vegi fyrir neinum hingað til, við viljum og höfum aðstoðað okkar leikmenn við að ná eins langt og mögulegt er. Vinnubrögð sumra félaga eru orðin fyrir neðan allar hellur, og mörg af þeim sýna okkur virðingarleysi með þessum óeðlilegum vinnubrögðum.“

Aðspurður hvort Selfyssingar hafa lagt fram kvörtun til HSÍ vegna vinnubragða félaga segir Gunnar það ekki hafa verið gert að svo stöddu.

Sjá nánar á fimmeinn.is

Fyrri greinEllert ráðinn framkvæmda- og umhverfisstjóri
Næsta greinAðstoðuðu ökumann á Landmannaleið