Viltu vinna á Landsmóti á Selfossi?

Sem kunnugt er sér HSK um framkvæmd 27. Landsmóts UMFÍ, sem haldið verður á Selfossi dagana 4.–7. júlí í sumar. Til þess að mótið verði að veruleika þarf HSK á miklum fjölda sjálfboðaliða að halda.

Aðildarfélög og einstaklingar eru því hvött til að taka á með HSK og bjóða fram krafta sína til vinnu við mótið, hvort sem er við framkvæmd íþróttakeppninnar, gæslu eða þjónustu við keppendur og gesti. Aðildarfélög sambandsins hafa fengið bréf vegna þessa.

Skráning sjálfboðaliða er hafin á netfangið landsmotumfi@umfi.is og er stefnt að því að manna allar stöður fyrir 10. júní.

Líkt og á Unglingalandsmótinu í fyrra verður 70% af hugsanlegum hagnaði landsmótsins úthlutað til þeirra félaga, deilda og ráða sem senda sjálfboðaliða til vinnu. Hagnaðarhlutdeild fer eftir fjölda vinnustunda hjá viðkomandi félagi/deild/ráði. Í fyrra voru greiddar 782,50 kr. fyrir hverja vinnustund.

Nánari upplýsingar eru gefnar á skrifstofu HSK í síma 482 1189.

Fyrri greinSamstöðu og baráttutónleikar í Þorlákshöfn
Næsta greinLeitað að Frakka á Fimmvörðuhálsi