Vill að Selfyssingar skoði loftborið hús

Síðustu vikur hafa bæjaryfirvöld á Selfossi velt fyrir sér möguleikanum á að byggja yfir KSÍ sparkvelli til þess að þeir nýtist betur yfir vetrarmánuðina.

Málið var rætt á síðasta fundi íþrótta- og tómstundanefndar Árborgar þar sem hluti af kostnaðaráætlun um yfirbyggingu yfir KSÍ sparkvöll var lögð fram.

Tómas Þóroddsson, nefndarmaður S-Lista, lagði til að horfið væri frá þessum hugmyndum og frekar leitað eftir samstarfi við Hveragerðisbæ um nýtingu á nýju Hamarshöllinni næstu árin.

„Á sama tíma ætti að skoða nánar loftborið íþróttahús, til dæmis yfir stóra gervigrasið á Selfossvelli,“ segir í bókun frá Tómasi.

Nefndarmenn meirihlutans þökkuðu Tómasi fyrir góðar ábendingar en ekki lá fyrir fundinum að taka afstöðu af eða á um yfirbyggingu á sparkvellina.

Fyrri greinRangæingar misstu ekki af jólasteikinni
Næsta greinTimbur sótt í Skarfanes í fyrsta sinn