„Viljum reyna að spila fótbolta“

Bergrós Ásgeirsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss vann gríðarlega mikilvægan sigur á Keflavík í botnbaráttu Bestu deildarinnar í knattspyrnu á Selfossi í kvöld.

„Hléið á deildinni var að gera okkur gott en svo erum við líka búin að vera í naflaskoðun, bæði leikmenn og þjálfarar. Við vorum ekkert á því að við vildum fara út í einhvern skotgrafahernað og bjarga tímabilinu okkar þannig. Við viljum reyna að spila fótbolta og verða betri í því. Svo verður bara útkoman úr því að koma í ljós,“ sagði Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. „Mér fannst við talsvert betri aðilinn í þessum leik og framlag í pressu og varnarleik hjá öllu liðinu var mjög gott.“

Ísinn brotnaði á 78. mínútu
Fyrri hálfleikur var tíðindalítill en Selfyssingar áttu ágæta spretti og vantaði herslumuninn að nýta sóknirnar. Staðan í leikhléi var 0-0.

Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og heimakonur voru mun líklegri framan af. Keflavík fékk þó frábært færi eftir einstaklingsframtak á 71. mínútu en Idun-Kristine Jørgensen varði frábærlega í marki Selfoss.

Á 78. mínútu brotnaði loksins ísinn hjá Selfyssingum, sem höfðu ekki skoraði mark í þrjá leiki í röð. Barbára Sól Gísladóttir pressaði markmann Keflavíkur uppúr markspyrnu sem endaði með því að markvörðurinn braut á henni. Víti dæmt og úr því skoraði Bergrós Ásgeirsdóttir af miklu öryggi.

Bæði lið fengu færi á lokakafla leiksins en niðurstaðan var sanngjarn 1-0 sigur Selfoss.

Þrátt fyrir sigurinn er Selfoss áfram í botnsæti deildarinnar, nú með 10 stig.

Fyrri greinTveir í röð hjá Selfyssingum
Næsta greinRangæingar létu til sín taka í seinni hálfleik