Viljayfirlýsing um framkvæmd 18 holu golfvallar við Selfoss

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri og Páll Sveinsson, formaður GOS, skrifuðu undir viljayfirlýsinguna. Ljósmynd/GOS

Fulltrúar Golfklúbbs Selfoss og Sveitarfélagsins Árborgar undirrituðu í dag, sunnudaginn 24. janúar, viljayfirlýsingu um framkvæmd á 18 holu golfvelli við Selfoss.

Viljayfirlýsingin er undirrituð á afmælisdegi klúbbsins en hann var stofnaður á þessum degi fyrir 50 árum, árið 1971.

Níu holu golfvöllur hefur verið á bökkum Ölfusár norðan við Selfoss um áratuga skeið. Þjóðvegurinn við Selfoss fær senn nýtt vegstæði og ný brú yfir Ölfusá mun rísa á næstu árum. Þetta þýðir að Golfklúbbur Selfoss hefur látið syðsta hluta vallarins undir þá framkvæmd. Til að koma á móts við þessar breytingar hafa staðið yfir framkvæmdir á þremur nýju golfbrautum sem hafa fengið nýjan stað norðar í landi klúbbsins. Framkvæmdirnar hófust haustið 2018 og er stefnt að því að opna þær í sumar.

Fjárhagslegt og faglegt hagræði
„Meðfram framkvæmdunum hefur stækkun vallarins verið skipulög og þykir mikilvægt að framkvæmdirnar fái framhald í stækkun upp í fulla stærð eða 18 holur. Slíkt hefur mikla hagræðingu í för með sér, bæði fjárhagslega og faglega,“ segir Páll Sveinsson, formaður GOS.

Að sögn Páls hefur aðsókn að klúbbnum, bæði gesta og félagsmanna, stóraukist síðustu ár og er svo komið að þörf er á stækkun vallarins til að anna eftirspurn.

„Forsvarsfólk klúbbsins fær reglulega fyrirspurnir um golfvöllinn frá fólki sem kannar búsetukosti í sveitafélaginu og hvort hann sé í fullri stærð. Mörgum finnst skjóta skökku við að stærsta sveitarfélag Suðurlands bjóði ekki upp slíka stærð golfvallar,“ segir Páll og bætir við að golfklúbburinn og sveitarfélagið deili sýn á hlutdeild klúbbsins í lýðheilsumarkmiðum sveitarfélagsins. Svæði vallarins hefur því verið skipulagt með göngustíga, reiðstíga og útiveru almennings í huga sem og verður það öllum aðgengilegt.

Viljayfirlýsingin sem var undirrituð í dag felur í sér að farið verður í að gera samning um aðkomu sveitarfélagsins og stuðning við fyrirhugaðar framkvæmdir. Þannig mun 18 holu golfvöllur rísa á bökkum Ölfusár við Selfoss á næstu árum.

Þess má geta að Bárður Guðmundarson, fyrrum formaður klúbbsins, er þessa dagana að leggja lokahönd á ritun sögu Golfklúbbs Selfoss og mun hún verða birt á heimasíðu klúbbsins.

Fyrri greinÖruggt hjá Hamri þrátt fyrir fyrstu taphrinuna
Næsta grein„Tilgangurinn að koma völdum í hendur fárra aðila“