Vilja miðla af reynslu sinni til ungmenna

Tveir ungir körfuknattleiksmenn sem báðir spila körfubolta með háskólaliðum í Bandaríkjunum, þeir Árni Ragnarsson og Vésteinn Sveinsson efna til námskeiðs í körfubolta fyrir börn og unglinga á Selfossi í ágúst.

Námskeiðið er ætlað börnum á aldrinum 6 til 16 ára, og er fyrir byrjendur sem lengra komna og fer það fram í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi dagana 8.-19. ágúst.

Þeir Árni og Vésteinn eru báðir 23 ára og stunduðu báðir nám við FSu fyrir nokkrum árum og fóru þar í gegnum körfuboltakademíuna. Í kjölfarið fóru þeir báðir utan til náms í háskólum og spila þar jafnframt körfubolta.

Árni, sem kemur úr Grafarvoginum í Reykjavík er við University of Alabama í borginni Huntsville. Vésteinn, sem er Skagamaður, er við nám í Ashford University, sem er í Iowa fylki, í miðvestur hluta Bandaríkjanna. Báðir segja þeir körfuboltaakademíuna við Fjölbrautaskólann hafa verið mikinn stökkpall.

Á námskeiðinu verður farið yfir grundvallaratriði körfuboltans, tækniatriði og önnur atriði er lúta að íþróttinni sjálfri. Þess utan verður áhersla á mikilvægi menntunar og aga sem þeir Árni og Vésteinn segja grunn þess að ná árangri.

Námskeiðið stendur yfir í tvær vikur, og er aldursskipt. Yngri krakkarnir, á aldrinum sex til tíu ára verða fyrir hádegi, frá 9 til 12, og þeir eldri 11-16 ára frá kl. 13 til 17. Seinni vikuna verður allur hópurinn saman. Greiða þarf 10 þúsund króna námskeiðsgjald.

Stefnt er að því að stofnuð verði stúlknadeild í akademíunni og því er ekki síst hvatt til þess að stelpur komi á námskeiðið og fái að kynnast þessari skemmtilegu íþrótt frá hendi þeirra sem hafa stundað hana með þeim hætti sem Árni og Vésteinn hafa gert.

Skráning er á netpóstinum fsubudir@gmail.com og í símum 848 8655 (Vésteinn) og 690 2056 (Árni).

Fyrri greinYfir þrjátíu umsóknir um starf sviðsstjóra
Næsta greinHamingjan á Flúðum