Vilja ljúka stúkubyggingu

Stjórn knattspyrnudeildar Umf. Selfoss var endurkjörin einróma á aðalfundi í síðustu viku. Á fundinum var samþykkt ályktun um stúkubygginguna.

Á fundinum var lögð fram skýrsla stjórnar og farið yfir síðasta sumar. Einnig var lagt fram uppgjör fyrir fyrstu 10 mánuði ársins. Fram kom að velta knattspyrnudeildar hefur aldrei verið meiri enda félagið í fyrsta skipti með lið í efstu deild. Rekstrarniðurstaða fyrir fyrstu 10 mánuði ársins var jákvæð, sem og unglingaráðs deildarinnar.

Öll stjórn deildarinnar gaf kost á sér áfram og var einróma endurkjörin. Stjórn unglingaráðs var einnig endurkjörin. Mikill hugur er í stjórnarmönnum um að koma liðinu aftur á meðal þeirra bestu.

Nokkuð var rætt um framkvæmdir á íþróttarvallarsvæðinu og samþykkti fundurinn eftirfarandi ályktun:

Aðalfundur knattspyrnudeildar Umf. Selfoss, haldinn 24. nóvember 2010, lýsir yfir ánægju með öfluga uppbyggingu sem verið hefur á vallarsvæðinu á undanförnum árum. Munu þúsundir ungmenna í bæjarfélaginu njóta þess í framtíðinni. Fyrir það ber að þakka. Jafnframt hvetur fundurinn bæjaryfirvöld og alla aðra sem að málum koma til að halda ótrauðir áfram á sömu braut og ljúka við stúkubyggingu við völlinn svo að t.d. búningsaðstaða komist í viðunandi horf.