Vilhjálmur bestur hjá Hamri – Jón hættur

Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson er leikmaður ársins hjá meistaraflokki Hamars í knattspyrnu en lokahóf félagsins stendur nú yfir í Þinghúsinu í Hveragerði.

Vilhjálmur er vel að titlinum kominn en hann var einn af burðarásum liðsins í sumar og skoraði mikið framan af mótinu.

Marteinn Sindri Björnsson var valinn mikilvægasti leikmaðurinn að mati stjórnar og Haraldur Hróðmarsson vann markakóngstitilinn með yfirburðum en hann skoraði þrettán mörk í 2. deildinni í sumar.

Auk þessara þriggja fengu nokkrir leikmenn verðlaun fyrir leikjafjölda.

Jón Aðalsteinn Kristjánsson, þjálfari, hefur stýrt liðinu í þrjú sumur en hann hyggst ekki halda áfram með liðið. Þetta kemur fram á Twittersíðu Ellerts Eiríkssonar, leikmanns Hamars.