Selfoss tók á móti Víkingum á Ragnarsmótinu í handbolta sem hófst í Set-höllinni Iðu á Selfossi í gærkvöldi. Víkingar reyndust sterkari og sigruðu 28-38.
Leikurinn byrjaði með látum og var jafnræði með liðunum fram í miðjan fyrri hálfleikinn. Þá sprettu Víkingar framúr og litu varla til baka eftir það, leiddu með 7 mörkum í hálfleik, 22-15. Selfyssingar mættu ákveðnir inn í seinni hálfleikinn en góður markvörður Víkinga slökkti vonir þeirra jafnharðan. Víkingur hélt undirtökunum út seinni hálfleikinn og sigraði að lokum með tíu mörkum.
Hákon Garri Gestsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Álvaro Mallols, Hannes Höskuldsson og Tryggvi Sigurberg Traustason skoruðu allir 4 mörök, Elvar Elí Hallgrímsson, Jónas Karl Gunnlaugsson og Árni Ísleifsson 2 og Ragnar Hilmarsson 1. Ísak Kristinn Jónsson varði 8 skot í marki Selfoss og Egill Eyvindur Þorsteinsson 3.
Hjá Víkingum var Sigurður Páll Matthíasson markahæstur með 11 mörk og Daði Bergmann Gunnarsson varði 11 skot.
Í hinum leik gærkvöldsins skildu ÍBV og HK jöfn, 25-25. Jakob Ingi Stefánsson var markahæstur hjá ÍBV með 7 mörk og
Petar Jokanovic varði 10 skot. Hjá HK skoraði Haukur Ingi Hauksson 14 mörk og Róbert Örn Karlsson varði 14 skot.
Kvennaleikir í kvöld
Ragnarsmótið heldur áfram í kvöld og nú eiga konurnar leikinn. Kl. 18:00 mætast Víkingur og ÍBV og kl. 20:15 mætast Selfoss og Afturelding.

