Viking heldur í Jón Daða – mikið í húfi fyrir Selfoss

Þýska B-deildarfélagið Kaiserslautern hefur í allt sumar reynt að fá Selfyssinginn Jón Daða Böðvarsson í sínar raðir frá norska úrvalsdeildarliðinu Viking í Stavangri.

Samningur Jóns Daða við Viking rennur út um áramótin og hefur hann sjálfur samið við þýska liðið frá 1. janúar næstkomandi en Kaiserslautern fær hann þá frítt þar sem hann verður samningslaus.

Kaiserslautern vill hins vegar fá Jón Daða strax til liðs við sig áður en félagaskiptaglugginn lokar 1. september og hefur félagið ítrekað hækkað tilboð sitt í hann en Viking vill ekki selja.

Jón Daði hefur verið einn besti leikmaður Viking að undanförnu og liðið er í baráttu um Evrópusæti og komið í undanúrslit norska bikarsins.

Samkvæmt frétt Aftenbladet hljóðaði nýjasta tilboð Kaiserslautern upp á 5 milljónir norskra króna, eða 80 milljónir íslenskar. Viking hefur enn og aftur hafnað boðinu og vill halda í Selfyssinginn.

Knattspyrnudeild Umf. Selfoss hefur mikilla hagsmuna að gæta í þessu máli, en þegar Jón Daði fór frá Selfossi til Viking var samið um að Selfyssingar ættu hluta af ágóðanum þegar hann yrði seldur frá Viking. Vísir hefur greint frá því að Selfoss eigi rétt á 15-20 prósentum af kaupverðinu, sem væru þá í þessu tilviki um 14,5 milljónir króna.

„Ég er í erfiðri aðstöðu. Ég vil fara í sumar en um leið verð ég að virða það að ég er samningsbundinn Viking,“ sagði Jón Daði við Aftenbladet. „Viking gengur vel í augnablikinu, það eru tíu leikir eftir í deildinni og vonandi tveir í bikarkeppninni. Það yrði frábært að ná titli með Viking áður en ég fer.“

Kaiserslautern hefur enn tíma til þess að hækka boð sitt í Jón Daða en hann hefur ekki trú á því að svo verði. „Ég verð þá bara að taka því og núna einbeiti ég mér bara að því að ljúka ferli mínum hjá Viking á jákvæðum nótum,“ sagði Jón Daði ennfremur.

Fyrri greinSytnik tryggði Selfyssingum langþráð stig
Næsta greinRagnarsmótið hefst í kvöld