Vígsluleikur gegn toppliði Stjörnunnar

Það verður hátíðleg stund á Selfossvelli í kvöld þegar kvennalið Selfoss tekur á móti toppliði Stjörnunnar í Pepsi deildinni í knattspyrnu.

Áður en leikurinn hefst verður stutt vígsluathöfn þar sem sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson blessar nýju stúkuna áður en byggingarverktakinn Vörðufell afhendir ungmennafélaginu lykla að klefum og almenningssalernum sem einnig eru í byggingunni.

Sr. Óskar hefur verið duglegur að mæta á völlinn og veitir ekki af í kvöld þar sem ljóst er að stelpurnar þurfa á stuðningi áhorfenda og jafnvel æðri máttarvalda því að Stjörnustelpurnar eru í feiknaformi og hafa unnið alla leiki sína í mótinu hingað til.

Selfyssingar eru hvattir til að mæta á völlinn og hvetja liðið áfram en frítt er á völlinn í boði Krónunnar. Eins og venjulega verða grillaðir hamborgarar fyrir leik og stuðningsmannakaffið að sjálfsögðu á sínum stað í Selinu í hálfleik.

Fyrri greinFasteignamat á Suðurlandi hækkar um 5,8%
Næsta greinDagur ferskra vinda á laugardag