Sögulegt skákmót fór fram í gær, sunnudaginn 29. júní, í Laugarvatnshellum. Mótið var liður í samstarfi milli vignirvatnar.is, Caves of Laugarvatn og Fontana Spa og vakti strax mikla athygli fyrir einstakar aðstæður og óvenjulega umgjörð.
Laugarvatnshellarnir eru ekki einungis náttúruleg undur. Þeir geyma líka merka sögu, en þarna var síðast búið árið 1922.
Alls mættu 48 keppendur til leiks og myndaðist einstök stemning þegar keppendur léku sína fyrstu leiki í skugga móbergsveggja. Tefldar voru 7 umferðir með tímamörkum 3+2. Meðal keppenda var fjölbreyttur hópur, bæði margreyndir og stigaháir skákmenn sem þekkja vel til á skáksviðinu, sem og hópur ungra og efnilegra stráka og stelpna sem stigu sín fyrstu skref í skákinni.

Íslandsmeistara Vignir Vatnar. Ljósmynd/Graatje Weber
Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar, lék fyrsta leik mótsins fyrir nýkrýndan Íslandsmeistara Vignir Vatnar og hófst þá baráttan af fullum krafti. Þrátt fyrir ausandi rigningu hélt hellirinn keppendum og gestum tiltölulega þurrum, og stemningin minnti fremur á hátíð en hefðbundið skákmót. Fjölmargir áhorfendur komu við og fylgdust með aðstæðum.
Það var enginn annar en nýkrýndur Íslandsmeistari Vignir Vatnar Stefánsson sem sigraði mótið með 6,5 vinningum af 7 mögulegum. Í öðru sæti varð Arnar Milutin Heiðarsson með 6 vinninga og í þriðja sæti Ingvar Þór Jóhannesson með 5,5 vinninga.

Magnús Matthíasson (5 vinningar) náði stórkostlegum árangri og hlaut verðlaun fyrir besta árangur í flokki keppenda með minna en 2000 stig. Mikael Bjarki Heiðarsson (5 vinningar) var efstur í aldursflokki 16 ára og yngri. Í flokki óstigaskráðra sigraði Katrín Ósk Tómasdóttir (2 vinningar) en hún æfir hjá Skákdeild Hauka og er aðeins 10 ára gömul.
Að móti loknu bauð Fontana Spa öllum keppendum í slökun. Þar vakti sérstaklega athygli sundskýla með taflborðamynstri sem naut greinilega mikilla vinsælda meðal keppenda.
Skákstjóri mótsins var Gunnar Björnsson, fyrrverandi formaður og stofnandi Taflfélagsins Hellis!
Frekari úrslit má finna á Chess Result



