Viðar Örn kallaður inn í landsliðið á nýjan leik

Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson hefur verið kallaður inn í landsliðshóp Íslands í knattspyrnu fyrir leiki liðsins gegn Andorra og Frakklandi í undankeppni EM um næstu helgi.

Þetta eru athyglisverð tíðindi í ljósi þess að Viðar gaf út tilkynningu í haust um að hann væri hættur að spila með landsliðinu. Viðar var í gær lánaður til sænska úrvalsdeildarliðsins Hammarby eftir að hafa átt erfitt uppdráttar hjá Rostov í Rússlandi. Hann sér nú fram á bjartari tíma og er til í slaginn með landsliðinu.

„Á þeim tíma sem ég hætti í landsliðinu þá gekk mér erfiðlega í Rússlandi og æfði lítið. Það hjálpaði mér því ekki að vera fara í landsliðsverkefni og missa af æfingum með Rostov. Á þeim tímapunkti hugsaði ég um hagsmuni mína og vildi koma mér í betra stand og reyna koma mér í liðið hér í Rússlandi,“ sagði Viðar í viðtali við Fótbolta.net á dögunum.

Viðar hefur leikið 19 A-landsleiki og skorað í þeim 2 mörk.

Ísland mætir Andorra á föstudaginn og Frakklandi á mánudag, en báðir leikirnir fara fram ytra. Jón Guðni Fjóluson er í landsliðshópnum en Jón Daði Böðvarsson er meiddur og Guðmundur Þórarinsson hlaut ekki náð fyrir augum landsliðsþjálfarans í þetta skiptið.

 

 

Fyrri greinFramkvæmdir hefjast við Hamarshöll
Næsta greinRósa Hlín ráðin leikskólastjóri