„Við verðum fúlir í smá stund“

Haukur Þrastarson skorar eitt af sjö mörkum sínum í leiknum. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfoss tapaði naumlega gegn Haukum í leik tvö í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta á Selfossi í kvöld, 26-27. Staðan í einvíginu er 1-1.

„Þetta var hörkuleikur og kemur ekkert á óvart þar. Við náðum að koma okkur í góða stöðu í fyrri hálfleik en erum klaufar í lok fyrri hálfleiks og svo byrjum við seinni hálfleikinn illa eins og í síðasta leik. Það er eitthvað sem við þurfum að laga. Það vantaði smá klókindi þegar við erum komnir yfir og að halda haus þegar við erum komnir í þessa stöðu. Við slökum svolítið á og við getum ekki boðið upp á það,“ sagði Haukur Þrastarson, markahæsti leikmaður Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við þurfum bara að skoða leikinn og það er fullt af hlutum sem við getum bætt. Við verðum fúlir í smá stund í kvöld en svo gírum við okkur bara upp í næsta leik á morgun og á sunnudaginn og mætum 100% þar. Þetta verður bara stríð,“ sagði Haukur ennfremur.

Frábær kafli í fyrri hálfleik
Það var jafnt á nán­ast öll­um töl­um fyrstu fimmtán mín­út­urn­ar en þá tóku Hauk­arn­ir frum­kvæðið og náðu tveggja marka for­skoti, 8-6. Síðasta kort­erið í fyrri hálfleik var hins veg­ar eign Sel­fyss­inga þar sem þeir skoruðu átta mörk gegn einu og breyttu stöðunni í 14-9. Haukar skoruðu tvö síðustu mörkin í fyrri hálfleik og staðan var 14-11 í leikhléi.

Sel­foss hélt for­yst­unni fyrstu átta mín­út­urn­ar í seinni hálfleik en þá jöfnuðu Hauk­ar 18-18. Sel­fyss­ing­ar voru skref­inu á und­an í fram­hald­inu en leik­ur­inn var æsispenn­andi og mikið um mis­tök. Hauk­ar náðu frum­kvæðinu á loka­mín­út­un­um og komust í 25-26 þegar ein og hálf mín­úta var eft­ir.

Hauk­ur jafnaði fyr­ir Sel­foss þegar 36 sek­únd­ur voru eft­ir og síðasta sókn Hauka virt­ist vera að renna út í sand­inn. Daní­el Þór Inga­son negldi boltanum að marki upp á von og óvon þegar þrjár sekúndur voru eftir. Knötturinn endaði í netinu og Haukarnir stigu sigurdans.

Haukur markahæstur
Haukur Þrastarson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Nökkvi Dan Elliðason skoraði 5/2, Elvar Örn Jónsson 5, Árni Steinn Steinþórsson 4, Alexander Már Egan 2 og þeir Atli Ævar Ingólfsson, Hergeir Grímsson og Guðni Ingvarsson skoruðu allir 1 mark. Alexander Már og Hergeir voru öflugir í vörninni í kvöld ásamt Sverri Pálssyni.

Sölvi Ólafsson varði 10 skot í leiknum og var með 31% markvörslu. Hann náði sér ekki á strik í seinni hálfleik og varði þá aðeins 3 skot. Pawel Kiepulski kom inná í tæpar tíu mínútur í seinni hálfleik og náði ekki að verja skot.

Breyttur messutími á sunnudaginn
Staðan í ein­víg­inu er 1-1 og liðin mæt­ast næst í Hafnar­f­irði á sunnu­dags­kvöld kl. 18:00. Áhorfendur eru beðnir um að athuga breytta tímasetningu frá áður auglýstum leiktíma.

Fyrri greinGóður sigur Selfoss á útivelli
Næsta greinSelfoss fékk Stjörnuna í bikarnum