„Við tökum stigið og virðum það“

Brenna Lovera skoraði mark Selfoss. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Kvennalið Selfoss er í toppsæti Bestu deildarinnar í knattspyrnu þrátt fyrir 1-1 jafntefli gegn Þrótti á Selfossvelli í kvöld.

Selfyssingar fengu blauta tusku í andlitið strax í upphafi því Þróttur skoraði úr fyrstu sókn leiksins, eftir 66 sekúndur. Selfossvörnin svaf þar á verðinum og á næstu mínútum átti Þróttur eina eða tvær hættulegar sóknir. En þar með var öll sagan sögð. Það sem eftir lifði leiks var Selfoss nánast alfarið með boltann og leitaði leiða framhjá þéttri varnarlínu Þróttar.

Staðan í hálfleik var 0-1 en Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og á 66. mínútu tókst Brenna Lovera að jafna metin með góðu skoti úr teignum eftir undirbúning Barbáru Sólar Gísladóttur. Markið lá svo sannarlega í loftinu og Selfyssingar voru mun líklegri til þess að skora sigurmark, en færin voru ekki mörg. Helsta hættan var í föstum leikatriðum, til að mynda átti Selfoss nokkrar hættulegar hornspyrnur, en niðurstaðan varð 1-1 jafntefli og Þróttarar eflaust mun sáttari við þau úrslit.

„Það var rosalega mikill munur á fyrri og seinni hálfleik. Við vorum ekki alveg on í fyrri hálfleiknum en náðum að laga það sem þurfti að laga í leikhléinu og seinni hálfleikurinn var frábær skemmtun. Við höfðum algjöra yfirburði í seinni hálfleik en vantaði bara hreinni færi,“ sagði Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss í samtali við sunnlenska.is eftir leik. „Við tökum stigið og virðum það, við erum enn á toppnum og ekki búin að tapa leik og það er það sem við tökum með okkur úr leiknum í kvöld.“

Selfyssingar eru einar á toppnum eftir þrjár umferðir og mæta næst Þór/KA á útivelli á laugardaginn.

Fyrri greinHúsnæði undir listsköpun og veljum bæjarlistamann
Næsta greinTil unga fólksins í Árborg!