„Við hefðum getað klárað þetta“

Atli Ævar Ingólfsson er í 35 manna æfingahóp landsliðsins. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfoss tapaði sínum fyrsta heimaleik í Olísdeild karla í handbolta í vetur þegar Stjarnan kom í heimsókn í Hleðsluhöllina í kvöld.

„Þetta er svekkjandi. Við vorum komnir í góða stöðu og hefðum getað klárað þetta,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. „Við klikkuðum mikið á góðum færum í kvöld, skutum í rammann og markmaðurinn þeirra ver þrjú víti, samt skorum við 26 mörk. Við hefðum alveg getað unnið þennan leik, þetta var flottur leikur en Stjarnan kannski aðeins heppnari í dag.“

Vítakast í súginn í leikslok
Selfoss byrjaði vel og komst í þriggja marka forystu en Stjörnumenn breyttu til í vörninni um miðjan fyrri hálfleikinn og þá fóru Selfyssingar að hiksta. Gestirnir gengu á lagið og komust yfir en staðan var 12-15 í hálfleik.

Stjarnan náði fimm marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks en frábær kafli Selfyssinga um miðjan hálfleikinn, þar sem þeir skoruðu fimm mörk í röð, varð til þess að þeir vínrauðu jöfnuðu, 21-21, þegar tæpar tíu mínútur voru eftir.

Lokakaflinn var æsispennandi en Stjarnan virtist vera með unninn leik í höndunum í stöðunni 26-27 – og boltann í höndunum – þegar sjö sekúndur voru eftir. Gestirnir misstu hins vegar boltann og Selfoss fékk vítakast um leið og leiktíminn rann út. Einar Sverrisson fór á línuna en Sigurður Ólafsson, markvörður Stjörnunnar, sá við honum og varði sitt þriðja vítaskot í leiknum.

Pawel flottur í fyrri – Sölvi flottur í seinni
Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Atli Ævar Ingólfsson og Árni Steinn Steinþórsson skoruðu báðir 5 og þeir Hergeir Grímsson, Einar Sverrisson, Guðni Ingvarsson og Guðjón Baldur Ómarsson skoruðu allir 2 mörk.

Pawel Kiepulski varði 11 skot í marki Selfoss, öll í fyrri hálfleik. Sölvi Ólafsson kom inná í seinni hálfleik og átti góða innkomu, varði 10 skot.

Selfoss er í 2. sæti deildarinnar með 16 stig en Stjarnan er í 6. sæti með 12 stig.

Fyrri greinStórt tap á heimavelli
Næsta grein300 viðskiptavinir tilnefndu styrkþega