„Við eigum þetta svo sannarlega skilið“

Haukur Þrastarson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Þetta var æðislegt, geggjað að ná að vinna titilinn í þessu húsi fyrir framan okkar fólk. Ólýsanlegt,“ sagði Haukur Þrastarson, leikmaður Selfoss, eftir að Selfyssingar tryggðu sér Íslandsmeistaratitil karla í handbolta í kvöld.

„Þessi leikur í kvöld var öðruvísi en allir leikir sem við höfum spilað í úrslitakeppninni og í allan vetur. Þetta hafa yfirleitt verið jafnir leikir hjá okkur. Við byrjuðum frábærlega í kvöld, sérstaklega varnarlega. Við héldum fókus og byggðum svo ofan á þetta jafnt og þétt og það skóp þennan þægilega mun sem við höfðum í seinni hálfleik og við héldum þetta út,“ sagði Haukur og bætti við að stuðningsmenn liðsins ættu stóran þátt í sigrinum.

„Ég veit ekki hvað ég á að segja um þennan stuðning sem við erum búnir að fá í úrslitakeppninni. Að sjá allt þetta fólk hér í kvöld og lætin í húsinu. Þetta er ómetanlegt.“

Og Haukur er stoltur af uppskeru vetrarins, fyrsti stóri titilinn í húsi á Selfossi.

„Þetta gerist ekki bara í vetur. Við erum búnir að leggja ótrúlega hart að okkur síðustu ár, bara allir í félaginu, allt teymið í kringum þetta og allir leikmennirnir. Við eigum þetta svo sannarlega skilið,“ sagði Haukur réttilega að lokum.

Fyrri greinGuðni forseti sendir Selfyssingum heillaóskir
Næsta grein„Magnað hvað bærinn sameinaðist“