„Við eigum stúkuna hérna í Vestmannaeyjum“

Barbára Sól fagnar marki á móti ÍBV í sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann magnaðan 1-0 sigur á ÍBV í rokinu á Hásteinsvelli í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu í dag.

Bárbara Sól Gísladóttir skoraði eina mark leiksins á 15. mínútu eftir frábæra sókn og ennþá betri stoðsendingu frá Grace Rapp inn á vítateiginn.

„Bestar þegar við höldum boltanum niðri“
„Þetta var fínt miðað við veður. Það var erfitt að halda boltanum niðri og hafa stjórn á honum, mikill vindur á annað markið en við gerðum það besta úr aðstæðunum. Það er eiginlega auðveldara að spila á móti vindi, þá verður maður að halda boltanum niðri og við fengum mark úr mjög góðri sókn. Þetta er það sem við erum búnar að vera að gera á æfingum. Við erum bestar þegar við höldum boltanum niðri og spilum með einni eða tveimur snertingum,“ sagði Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfoss hefur nú 13 stig í 4. sæti deildarinnar þegar Íslandsmótið er hálfnað en ÍBV er í 6. sæti með 9 stig og á leik til góða.

„Við ætlum að gera betur en í fyrra og viljum vera í efri hluta töflunnar, en við erum ekkert að skoða töfluna núna í miðju móti, við gerum það bara í lok móts,“ sagði Anna María og hrósaði ennfremur stuðningsmönnum Selfoss sem fjölmenntu til Eyja í dag.

„Það er fáránlegt hvað við fáum góðan stuðning. Við eigum stúkuna hérna í Vestmannaeyjum og það er ekki í fyrsta skipti og vonandi ekki í það síðasta. Við eigum stúkuna á mörgum völlum sem við komum á og stuðningsmenn okkar eiga mikið hrós skilið fyrir að nenna að elta okkur út um allt land, og hvað þá til Vestmannaeyja í svona skítaveðri,“ sagði Anna María að lokum.

Selfyssingum leiðist ekki að verjast
Vindurinn hafði mikil áhrif á leikinn en Eyjakonur höfðu rokið í bakið í fyrri hálfleik en allar þeirra tilraunir fuku aftur fyrir endamörk, eða enduðu í öruggum höndum Kelsey Wys, sem átti mjög góðan leik í marki Selfoss.

Besta færi ÍBV í fyrri hálfleik var skalli frá Sigríði Láru Garðarsdóttur í þverslána á Selfossmarkinu en annars voru heimakonurnar ekki mjög hættulegar.

ÍBV fékk sitt besta færi á fjórðu mínútu seinni hálfleiks þegar Emma Kelly slapp ein innfyrir en skaut framhjá úr upplögðu færi. ÍBV var meira með boltann í seinni hálfleik en Selfyssingum leiðist ekkert að verjast og gáfu fá færi á sér.

Selfoss átti líka sínar sóknir, Grace Rapp átti lúmskt skot af löngu færi sem Guðný Óðinsdóttir, markvörður ÍBV, var nálægt því að missa inn og á 68. mínútu átti Barbára skalla í þverslána.

Síðustu tuttugu mínúturnar voru tíðindalitlar og Selfoss kláraði leikinn af miklu öryggi.

Fyrri greinEnn hiksta Hamarsmenn
Næsta greinBrons á NM í Finnlandi