Víðir ráðinn knattspyrnustjóri Hamars

Víðir Leifsson hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri Hamars í Hveragerði en þetta staðfesti Ævar Sigurðsson, formaður knattspyrnudeildarinnar, í samtali við fotbolti.net.

Víðir kemur þar með inn í þjálfarateymi liðsins ásamt Ingólfi Þórarinssyni og Birki Hlynssyni.

„Ingó verður áfram þjálfari en Víðir kemur inn sem hálfgerður manager. Hann velur liðið og stjórnar liðinu í leikjunum. Hann verður þó ekki á öllum æfingum en hann stjórnar öllum leikjunum,“ sagði Ævar í samtali við Fótbolta.net og segir að Ingólfur Þórarinsson spilandi þjálfari liðsins hafi fullt traust frá stjórn félagsins.

„Við höfum mikla trú á Ingó en þetta hefur ekki alveg verið að ganga. Þetta væri fínt ef leikurinn væri bara fyrri hálfleikur. Við trúum því að Víðir komi sterkur inn,“ sagði Ævar en Hamar eru án stiga í 3. deildinni eftir átta umferðir og níu stigum frá öruggu sæti.

„Við höfum enn trú á því að við náum að bjarga sæti okkar í deildinni. Við ætlum að gera allt sem við getum til að halda okkur uppi. Þetta er auðvitað ekki staðan sem við lögðum upp með í byrjun, það voru hærri markmið. En fyrst þetta er svona, þá er þetta viss björgunarpakki,“ sagði Ævar ennfremur.

Fyrri greinUmferð hleypt á nýja brú yfir Múlakvísl
Næsta greinVilja opna lífdíselstöð