Viðar og Jón Daði í A-landsliðshópnum

Selfyssingarnir Viðar Örn Kjartansson og Jón Daði Böðvarsson eru báðir í landsliðshóp Íslands í knattspyrnu sem mætir Lettlandi og Hollandi í undankeppni EM á næstunni.

Þá var Guðmundur Þórarinsson valinn í U21 lið Íslands sem mætir Danmörku á næstu dögum í tveimur umspilsleikjum um sæti í lokakeppni EM í knattspyrnu.

Jón Daði er einnig gjaldgengur í U21 liðið en þjálfarar landsliðanna voru sammála um að hann yrði í A-landsliðinu í komandi verkefnum frekar en að spila með U21 árs landsliðinu gegn Dönum.

„Hans frammistaða í síðasta leik hjá okkur gefur ekki tilefni til annars en að hann eigi að vera í A-landsliðinu. Vonandi heldur hann áfram að spila svoleiðis,“ sagði Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, á blaðamannafundi í dag, að því er fram kemur á fotbolti.net.

A-landsliðið mætir Lettlandi ytra þann 10. október og Hollendingum heima þann 13. október. U-21 liðið leikur gegn Danmörku ytra þann 10. október og heima þann 14. október.
Fyrri greinBæjarráð mótmælir flutningi Vinnueftirlitsins
Næsta greinTvö ný félög sækja um aðild að HSK