Viðar leikmaður mánaðarins í Svíþjóð

Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson var valinn leikmaður júlímánaðar í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en hann hefur verið að gera það mjög gott með toppliði Malmö að undanförnu.

Viðar Örn er markahæstur í deildinni með tólf mörk í sautján leikjum en Malmö lék þrjá leiki í júlí og skoraði Viðar í tveimur þeirra.

„Liðið hefur spilað vel síðustu vikurnar, og ég líka. Það er góð tilfinning,“ sagði Viðar í samtali við vef Allsvenskan. „Ég hef verið að skora mörkin en liðsfélagar mínir eiga stóran þátt í þessari viðurkenningu, ásamt þjálfurunum og stuðningsmönnunum. Ég vil þakka þeim fyrir þeirra hlut í þessu.“

Leikmaður mánaðarins er valinn af fyrirliðum liðanna í deildinni ásamt vel völdum þjálfurum og blaðamönnum. Sá útvaldi fær ávísun að verðmæti 140 þúsund íslenskra króna og rennur sú fjárhæð í barna- og unglingastarfs þess félags sem leikmaðurinn leikur með.

Fyrri greinÞakklátir fyrir góðar viðtökur
Næsta greinEngi fékk umhverfisverðlaun