„Við töpuðum bara mjög sannfærandi“

Selfoss tapaði 30-35 þegar ÍBV kom í heimsókn í Vallaskóla í Suðurlandsslag í Olís-deild kvenna í handbolta í dag.

Gestur Einarsson frá Hæli skrifar úr Vallaskóla.

„Þetta var ekki nógu gott, við töpuðum bara mjög sannfærandi, staðan 18-12 í hálfleik og varnarleikurinn ekki að virka. Við erum að fá á okkur of mörg mörk úr hraðupphlaupum, sóknarleikurinn staður og við erum alltof mikið að dribbla. Sóknarleikurinn var nú betri í seinni hálfleik og við skoruðum mörg mörk en varnarleikurinn var ekki að virka. Við fengum á okkur 35 mörk í leiknum þannig að varnarleikurinn er mikið áhyggjuefni,“ sagði Hilmar Guðlaugsson þjálfari Selfoss í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Hilmar var þó ánægður með sóknarleikinn í seinni hálfleik en munurinn var orðinn of mikill til að jafna leikinn.

„Þær skora þarna á sex til sjö mínútna kafla og það klárar okkur. Við vorum að láta þær gjörsamlega rúlla yfir okkur. Við erum að tapa boltanum illa og þær raða inn á okkur úr hraðupphlaupum. Við ætluðum náttúrulega að koma til baka en við fáum strax á okkur tvö mörk í byrjum seinni hálfleiks og munurinn orðinn átta mörk. Við náum fyrst að saxa á þetta þegar korter er eftir en munurinn var bara of mikill,“ sagði Hilmar ennfremur.

Selfossliðið stóð sig vel í fyrri hálfleik en þegar leið undir lok hálfleiks hann náði ÍBV sex marka forystu 12-16 en staðan var 8-8 þegar 22 mínútur voru liðnar af leiknum.

Selfoss náði sér engan veginn á strik í seinni hálfleik og náði ÍBV átta marka forystu í upphafi en munurinn varð mestur tíu mörk þegar tólf mínútur voru til leiksloka. Katrín Magnúsdóttir kom inná og varði mjög vel síðustu mínútur leiksins en hún náði að verja tíu bolta og fékk aðeins á sig níu mörk. Selfoss náði að minnka muninn niður í fjögur mörk er þrjár mínútur voru eftir en þá tók Hrafnhildur þjálfari ÍBV leikhlé og Selfoss náði ekki að brúa bilið í kjölfarið.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 11 mörk, Carmen Palamariu skoraði 7, Adina Ghidoarca 4, Kristrún Steinþórsdóttir 3, Kara Rún Árnadóttir og Hildur Öder Einarsdóttir 2 og Perla Ruth Albertsdóttir 1.

Áslaug Ýr Bragadóttir varði sex skot í leiknum og Katrín Ósk Magnúsdóttir varði tíu skot.

Fyrri greinÞrjú sunnlensk sveitarfélög á lista þeirra bestu
Næsta greinErfitt að skila hallalausum sveitarsjóði