„Við spiluðum frá­bær­lega í kvöld“

Selfyssingar féllu úr leik í úrslitakeppni Olís-deildar karla í handbolta í kvöld eftir hetjulega baráttu í leik tvö gegn Aftureldingu. Gestirnir sigruðu 31-33 eftir framlengingu í Vallaskóla og einvígið 2-0.

„Þetta er gíf­ur­lega svekkj­andi. Við spiluðum frá­bær­lega í kvöld. Í raun­inni fannst mér við spila nógu vel til þess að vinna leik­inn en því miður tókst það ekki,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. „Við erum að spila við liðið sem komst í odda­leik á Íslands­mót­inu í fyrra og erum drullu­svekkt­ir að vinna þá ekki.“

Sel­fyss­ing­ar voru sterk­ari í fyrri hálfleik og leiddu 12-10 í leik­hléi. Seinni hálfleik­ur­inn var æsispenn­andi, Aft­ur­eld­ing komst tvisvar einu marki yfir, en ann­ars höfðu Sel­fyss­ing­ar frum­kvæðið. Síðustu sóknir Selfoss í venjulegum leiktíma voru ekki nógu góðar. Liðið tapaði boltanum í tvígang og Afturelding náði að jafna metin, 27-27, þegar tvær sekúndur voru eftir af leiknum.

Það var stál í stál í fram­leng­ing­unni en Mos­fell­ing­ar fóru bet­ur með fær­in í síðustu sókn­um leiks­ins og tryggðu sér tveggja marka sig­ur.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk, Teitur Örn Einarsson skoraði 8/5, Elvar Örn Jónsson 7, Hergeir Grímsson 5 og Guðjón Ágústson 2. Einar Vilmundarson varði 18/1 skot í marki Selfoss.

Fyrri greinElvar Ingi í Selfoss
Næsta greinNýtt hundagerði í Þorlákshöfn