„Við óðum í opnum skotum“

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, var ánægður með margt í leik sinna manna í kvöld en að hans sögn varð léleg skotnýting í fyrri hálfleik liðinu að falli.

Þór tók á móti Grindavík í fjórða leiknum í einvíginu í kvöld. Gestirnir unnu að lokum öruggan sigur, 75-89, og samtals 3-1 í einvíginu.

„Þó að við höfum verið þremur stigum undir í hálfleik þá vorum við að spila hörkubolta fram að því. Ég var ánægður með vörnina og sömuleiðis sóknina nema að því leiti að við gátum ekki keypt körfu út þessum færum sem við vorum að fá. Þarna finnst mér við tapa leiknum – ekki í seinni hálfleik,“ sagði Benedikt í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við óðum í opnum skotum og þarna áttum við að vera búnir að byggja upp forskot til að taka með okkur inn í seinni hálfleikinn þegar þeir taka áhlaupið. Því þeir taka alltaf áhlaup á einhverjum tíma í leiknum. Þetta hefði örugglega orðið leikur ef við hefðum nýtt færin okkar í fyrri hálfleik,“ sagði Benedikt og bætti því við að að sjálfsögðu hefði hann viljað fá meira út úr leikjunum gegn Grindavík.

„Ég geri mér fulla grein fyrir því að við erum að spila við hörkulið en mér fannst samt að við ættum möguleika á móti þeim. En til þess að vinna þá þá þurfum við að eiga toppleik, hitta vel og halda fókus í vörninni.“

Dómgæslan í einvíginu var mikið til umræðu eftir leik númer tvö, þar sem Þórsarar sigruðu á heimavelli. Benedikt segir að línan hjá dómurunum hafi breyst í kjölfarið.

„Grindvíkingar gerðu allt vitlaust eftir leik tvö. Þeir voru ekki með neinar ábendingar, þeir hreinlega jörðuðu dómgæsluna og tóku þetta alla leið. Þeir fá rúmlega þrjátíu villur í leik tvö en fá svo tíu til fimmtán villur í næstu leikjum. Mér fannst leikirnir flautaðir öðruvísi eftir þetta en það vann samt ekki seríuna fyrir þá, þeir unnu þetta af því að þeir voru betra liðið.“

Fyrri greinÞórsarar komnir í sumarfrí
Næsta greinLucy in Blue komst áfram