„Við köstuðum þessu frá okkur“

Þórsarar eru komnir í sumarfrí eftir grátlegt tap gegn Haukum í fjórða leik liðanna í 8-liða úrslitum Domino's-deildar karla í körfubolta, í Þorlákshöfn í kvöld.

Lokatölur urðu 96-100 eftir framlengdan leik og Haukar unnu einvígið þar með 3-1.

„Þetta var mikil barátta og í fyrsta skiptið í seríunni sem mér fannst vera alvöru úrslitakeppnisleikur á milli þessara liða. Hinir leikirnir voru frekar daufir og liðin ekki að sýna sínar bestu hliðar. Þetta var alvöru leikur í kvöld og það var vont að tapa þessu. Við vorum með þetta í okkur höndum í hálfleik en köstum þessu frá okkur í seinni hálfleik. Ég ætla ekki að taka neitt af Haukunum, þeir eru með glæsilegt lið og verðskulduðu þennan sigur, en ég vil meina að við höfum átt meira inni heldur en við sýndum í þessum leikjum,“ sagði Ragnar Nathanaelsson, leikmaður Þórs, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Þórsarar spiluðu frábæran sóknarleik í fyrri hálfleik í kvöld. Aldrei þessu vant var Vance Hall ekki í aðalhlutverki í sókninni en þeir Emil Karel Einarsson og Baldur Þór Ragnarsson fóru fyrir sóknarleik Þórsara í fyrri hálfleik. Skotnýting Þórsara var góð, sérstaklega utan af velli og liðið hafði sannfærandi fjórtán stiga forskot í hálfleik, 54-40.

Haukar voru hins vegar ekki lengi að vinna upp forskotið í seinni hálfleik. Gestirnir spiluðu góða vörn og Þórsarar hittu afleitlega úr sínum skotum. Þór skoraði aðeins tíu stig í 3. leikhluta og þegar síðasti fjórðungurinn hófst var staðan 64-66, Haukum í vil.

Fjórði leikhluti var hnífjafn og æsispennandi. Það var ljóst að sigurinn gat fallið hvoru megin sem var en á síðustu mínútunum voru Þórsarar litlu skrefi á undan. Haukar áttu hins vegar ás uppi í erminni sem er galdrastrákurinn Kári Jónsson og hann smellti niður þriggja stiga skoti á lokasekúndunum, 87-88. Haukar brutu svo klaufalega á Ragnari Nathanaelssyni og hann jafnaði af vítalínunni, 88-88 þegar tvær sekúndur voru eftir.

Í framlengingunni voru Þórsarar yfir framan af en á síðustu tveimur mínútunum gerðu þeir of mörg klaufaleg mistök og Haukar gengu á lagið. Lokatölur 96-100 og Þórsarar komnir í frí.

Tölfræði Þórs: Emil Karel Einarsson 19 stig, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 18 stig/12 fráköst/4 varin skot, Vance Michael Hall 14 stig/6 fráköst, Ragnar Örn Bragason 13 stig/4 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 12 stig, Halldór Garðar Hermannsson 8 stig, Grétar Ingi Erlendsson 8 stig/6 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson 4 stig.

Fyrri greinFjöldi listamanna boðar komu sína á Bakkann
Næsta greinSelfoss tapaði heima