„Við gefumst aldrei upp“

Selfoss tapaði 1-3 þegar Breiðablik kom í heimsókn á Selfossvöll í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Við náðum ekki að byrja af þeim krafti sem við ætluðum og urðum á eftir í flest öllum aðgerðum. Við sýndum hins vegar mikinn karakter þegar við vorum komnar með bakið upp að vegg og fórum þá að spila eins og við höfum verið að gera; fast, einfalt, hratt fram á við og þéttar til baka með miklu hjarta. Það góða sem við tökum út úr þessum leik er að við höldum áfram, skorum gott mark og gefumst aldrei upp,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við erum aðeins á eftir Blikaliðinu eins og er en bilið minnkar með hverjum deginum. Stelpurnar eru að leggja sig allar fram, eins og allir sem koma að liðinu. Aðstoðarþjálfarinn, Jói Bjarna, er til dæmis í miklu átaki og stefnir á að komast í sitt besta form og undir 100 kílóin fyrir áramót,“ sagði Gunnar ennfremur.

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru óvenju skaplegar í kvöld miðað við tíðina í sumar, logn og blíða og aðalvöllurinn á Selfossi stóð undir nafni sem einn besti knattspyrnuvöllur Norður-Evrópu.

Blikar byrjuðu betur og strax á upphafsmínútunum þurfti Michele Dalton, markvörður Selfoss, að taka á honum stóra sínum. Blikar áttu þá þrumuskalla að marki en Dalton var eins og köttur í markinu og varði með tilþrifum.

Fyrsta mark Blika lá í loftinu og á 11. mínútu komust þær yfir, Dalton varði aftur en frákastið barst út í teiginn á Rakel Hönnudóttir sem skoraði í autt markið.

Selfoss átti ágæta spretti á næstu mínútum en Blikar komust í 0-2 á 19. mínútu eftir klafs í vítateig Selfyssinga. Þar var Rakel aftur á ferðinni og skoraði hún af harðfylgi.

Þær vínrauðu áttu í erfiðleikum með að loka sóknum sínum og sjaldan var hætta á ferðum í vítateig Blika. Guðmunda Óladóttir var þó nálægt því að skora þegar hún slapp innfyrir og potaði boltanum framhjá markverði Breiðabliks yst í vítateignum en boltinn rúllaði framhjá fjærstönginni. Á lokamínútu fyrri hálfleiks áttu Blikar hættulítið skot að marki frá hægri en Dalton splæsti í sjónvarpsmarkvörslu og gaf vallargestum eitthvað til að tala um í hálfleik.

Staðan var 0-2 í leikhléinu en strax á 6. mínútu síðari hálfleiks kom Þórdís Sigfúsdóttir Blikum í 0-3 eftir snarpa sókn. Selfoss ógnaði lítið í upphafi seinni hálfleiks en Guðmunda átti þó ágætt skot úr aukaspyrnu á 59. mínútu sem markvörður Blika varði.

Þegar leið á leikinn fór spilamennska Selfoss að batna og þær voru meira með boltann en Blikar áttu ágætar skyndisóknir. Dalton varði tvívegis vel maður á móti manni og var heilt yfir besti leikmaður Selfoss í þessum leik.

Í uppbótartíma gaf varnarmaður Blika boltann klaufalega frá sér og Valorie O’Brien náði knettinum eftir pressu við vítateigslínuna. O’Brien var yfirveguð þegar hún var komin með knöttinn inn í teig og skoraði af öryggi framhjá markverði Blika.

Lokatölur 1-3 en eftir þrettán umferðir er Selfoss áfram í 5. sæti deildarinnar með 20 stig.

Fyrri greinEina íslenska merkið í nýju appi
Næsta greinSex leikmenn frá Selfossi á landsliðsæfingar