„Við eigum helling inni“

Kvennalið Hamars hóf keppni í Domino's-deildinni í körfubolta í kvöld þegar Snæfell kom í heimsókn í Hveragerði. Lokatölur urðu 59-80.

„Við mættum bara alls ekki tilbúnar til leiks og höfðum ekki trú á þessu. Þetta er mjög einfalt, í fyrri hálfleik skorum við sautján stig og það er ekki séns að vinna leik í úrvalsdeildinni með því að skora sautján stig á tuttugu mínútum. Við vöknuðum aðeins í seinni hálfleik og auðvitað slakaði Snæfell á á sama tíma,“ sagði Daði Steinn Arnarsson, þjálfari Hamars, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Kannski var leikurinn vitlaust upplagður, ég ætla ekkert að fría mig af því og eflaust hefði ég átt að gera eitthvað öðruvísi, en í hnotskurn þá vorum við ekki tilbúin í fyrsta leik í keppni.“

Hvergerðingum er spáð neðsta sætinu í deildinni og Daði á von á því að það verði á brattann að sækja í vetur. „Við verðum fyrir heilmiklum áföllum á síðustu vikum og komum með mjög laskað lið inn í mótið. Við missum Heiðrúnu Kristmundsdóttur til Bandaríkjanna og þá hefur Elín Hrafnkelsdóttir ekki lengur far yfir Hellisheiðina og dettur út líka. Kaninn okkar kemur hálfum mánuði of seint og Íris sneri sig í æfingaleik á laugardaginn. Þetta er hræðileg tímasetning og það vinnur allt á móti okkur í upphafi móts þar sem við erum að spila fjóra leiki á fjórtán dögum. Ég get fundið endalausar afsakanir en það breytir því ekki að leikmennirnir mættu ekki tilbúnir í leikinn í kvöld,“ segir Daði ennfremur.

„Okkur er spáð neðsta sætinu og fólk veit að við höfum misst tvo leikmenn sem áttu kannski að vera burðarásar í liðinu. Ég held að Haukarnir stingi af í þessari deild og svo muni öll hin liðin reyta stig af hvort öðru í vetur. Ég er ekki í nokkrum vafa um að við munum vinna leiki í vetur. Við eigum helling inni og auðvitað stefnum við á úrslitakeppnina, en þetta verður erfiður vetur.“

Aðeins sautján stig í fyrri hálfleik
Hamarskonur voru hreinlega ekki með í fyrri hálfleik, Snæfell komst í 3-15 og leiddi 11-30 að loknum 1. leikhluta. Staðan í hálfleik var 17-45.

Hvergerðingar mættu hins vegar mun betur stemmdir til síðari hálfleiks og í 3. leikhluta skoraði liðið 26 stig gegn 17 stigum gestanna. Bilið var þó orðið of mikið en jafnræði var með liðunum í 4. leikhluta og munurinn var í kringum tuttugu stig allan tímann.

Suriya McGuire var stigahæst hjá Hamri með 26 stig, Nína Jenný Kristjánsdóttir skoraði 14, Íris Ásgeirsdóttir 10, Salbjörg Sævarsdóttir 4, Heiða Björg Valdimarsdóttir 3 og Hrafnhildur Magnúsdóttir 2.

Hjá Snæfelli var Haiden Palmer stigahæst með 30 stig og 13 fráköst. Gunnhildur Gunnarsdóttir og Berglind Gunnarsdóttir skoruðu báðar 14 stig og Hugrún Eva Valdimarsdóttir skoraði 10 stig.

Fyrri greinVerkfall hefur víðtæk áhrif á starfsemi HSu
Næsta greinElín kjörin kapteinn Pírata