„Við ákváðum að hafa gaman“

„Við bara komum og skiluðum því sem við ætluðum að gera – og sýndum það að við erum besta liðið í þessari deild.“

Þetta sagði Hallgrímur Brynjólfsson, þjálfari kvennaliðs Hamars, í samtali við sunnlenska.is eftir að liðið tryggði sér sæti í Domino’s-deildinni á næsta keppnistímabili, eftir öruggan sigur á Stjörnunni í oddaleik í kvöld, 73-59.

Leikurinn var í járnum í 1. leikhluta en Hamarskonur afgreiddu hann með frábærri rispu í upphafi 2. leikhluta. Stemmningin var mögnuð í Frystikistunni í Hveragerði, bæði innan og utan vallar en hátt í 400 manns mættu á leikinn.

„Við erum bara stemmningslið og þegar við fáum svona byr í bakið og vel gengur þá klárum við flestöll lið. Við sýndum styrk okkar í fyrsta leiknum en grófum okkur líka stóra holu í öðrum leiknum. Þannig að þessi afgreiðsla hér í kvöld sýnir að við erum líka karakterar. Við komum sterkar til baka og kláruðum leikinn,“ sagði Hallgrímur ennfremur.

Tvo sigra þurfti til að klára einvígið og Hamar vann öruggan sigur í fyrsta leiknum. Í leik númer tvö fékk liðið hins vegar slæman skell á útivelli.

„Það gerist stundum að maður er búinn að mála sér einhverja mynd í huganum en svo rignir og myndin lekur niður. Við mættum bara einbeitt til leiks hér í kvöld og stemmningin fyrir leik var góð. Við ákváðum að hafa gaman og gera það sem við erum góðar í, spila körfubolta og spila vörn. Það er ekkert lið í 1. deildinni sem er að koma hingað í Hveragerði að skora meira en 60 stig á okkur. Ef þau gera það þá eiga þau bara skilið að vinna.“

Hamar vann 1. deildina með yfirburðum en þrátt fyrir það var sæti í úrvalsdeildinni ekki öruggt. Efstu tvö liðin spiluðu um að komast upp og á endanum fór það svo að besta lið deildarinnar var komið upp að vegg, þar sem úrslit oddaleiks myndu ákvarða örlög liðsins. Hallgrímur er ekki ánægður með þetta fyrirkomulag.

„Þetta er bara til skammar. Deildarmeistararnir eiga bara að fara upp. Að senda okkur í úrslitakeppni og hafa síðan ekki manndóm í sér til að gefa okkur bikar fyrir sigur í henni finnst mér bara lélegt. Mér er reyndar skítsama um bikarinn, ég er kominn í úrvalsdeild,“ segir Hallgrímur sem vill að kvennaboltinn njóti meiri virðingar.

„Ég er bara að tala um virðinguna fyrir stelpunum, þær eru búnar að leggja á sig lengsta úrvalstímabil sem ég hef upplifað, við höfum lent í því að það sé mánuður á milli leikja og síðan koma þrír leikir í röð, þetta er bara fáránlegt. Opnið skúffuna og skipuleggið þetta betur, segi ég.“

Hallgrímur er á sínu fyrsta tímabili með meistaraflokk kvenna og hann slær á létta strengi þegar hann er spurður að því hvort hann haldi áfram með liðið.

„Það eru lið úti í heimi að hringja á fullu og ég þarf bara að setjast niður og hugsa málið. En ég er Sunnlendingur í húð og hár og hef sterkar taugar til Hamars þannig að ég reikna fastlega með því að ég verði áfram með liðið,“ sagði Hallgrímur sigurreifur að lokum.

Fyrri greinHamar aftur í deild þeirra bestu
Næsta greinOlson áfram með FSu – margir pennar á lofti